Á flugi Lifandi humar er víða að finna á matseðlum veitingahúsa.
Á flugi Lifandi humar er víða að finna á matseðlum veitingahúsa.
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum hyggst í sumar undirbúa og jafnvel hefja tilraunaveiðar á humri í gildrur.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum hyggst í sumar undirbúa og jafnvel hefja tilraunaveiðar á humri í gildrur. Humarinn yrði síðan fluttur lifandi úr landi og boðinn viðskiptavinum á veitingahúsum, væntanlega að mestu á meginlandi Evrópu til að byrja með.

Humarkvóti er í sögulegu lágmarki og kom fram í ræðu sem Guðmundur Örn Gunnarsson, stjórnarformaður VSV, flutti á aðalfundi félagsins í lok síðasta mánaðar að þetta væri m.a. gert til að bregðast við samdrættinum. Fyrir tæpum tíu árum gerði Vinnslustöðin tilraunir með gildruveiðar. Þær gengu þokkalega „en við hvorki þekktum mikið til tilheyrandi markaðsmála né höfðum nægilega góð tengsl við markaðinn,“ sagði Guðmundur í ræðu sinni.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri, segir að þessar veiðar yrðu fyrst og fremst í tilraunaskyni. Fyrirtækið eigi humargildrur, en það sé ekki nóg að koma þeim fyrir á líklegum stöðum.

„Þú færð upp lifandi humar, sem þarf að halda lifandi og selja þannig. Tæknin sem þarf til flutnings er þekkt, en áður en viðskiptavinur á veitingahúsi í Evrópu getur valið sér lifandi humar frá Vinnslustöðinni úr búri þurfum við að átta okkur á því hvernig best er að standa að þessu. Þetta yrðu engar magnveiðar og við þyrftum að fá margfalt hærra verð fyrir lifandi humar heldur en frystan til að þetta borgi sig,“ segir Sigurgeir.

Óþægilega lítið vitað um ástæður

Í ræðu sinni á aðalfundinum fjallaði Guðmundur Örn meðal annars um brest í loðnuveiðum og humarveiðum og sagði meðal annars: „Loðnubresturinn lokar vissulega dyrum hjá okkur, sem við vonum og trúum að sé tímabundið, en Vinnslustöðvarfólk kannar þessa dagana hvaða dyr megi hugsanlega opna í staðinn og reyna að draga úr áfallinu sem loðnubresturinn augljóslega er.

Humarbrestur kemur yfir okkur á sama tíma, sömuleiðis verulegt högg fyrir félagið og samfélagið hér. Sameiginlegt er með humri og loðnu að óþægilega lítið er vitað um ástæður þess hvernig komið er. Reyndar hafa vísindin alls engin svör við spurningum um hvað eiginlega gerðist með humarinn og hvers vegna.“