Íslenska karlalandsliðið í handknattleik mætir Norður-Makedóníu í 3. riðli undankeppni EM annað kvöld í Laugardalshöll. Allir leikmenn sem nú skipa hópinn eru leikfærir og klárir í slaginn en þetta staðfesti Guðmundur Þ.

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik mætir Norður-Makedóníu í 3. riðli undankeppni EM annað kvöld í Laugardalshöll. Allir leikmenn sem nú skipa hópinn eru leikfærir og klárir í slaginn en þetta staðfesti Guðmundur Þ. Guðmundsson, þjálfari íslenska liðsins, í samtali við mbl.is á æfingu landsliðsins í Safamýrinni í gær.

Landsliðsfyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson hefur glímt við veikindi en hann ætti að vera orðinn leikfær á morgun líkt og Aron Pálmarsson, sem æfði ekki með liðinu í gær. Aron kom til Íslands í gærkvöldi en hann varð spænskur bikarmeistari með Barcelona á sunnudaginn. Báðir eru þeir reyndir leikmenn sem þekkja hugmyndafræði Guðmundar vel og því ætti fjarvera þeirra á æfingunni í gær ekki að trufla þá í sínum undirbúningi. Ísland er í efsta sæti 3. riðils með fjögur stig eftir tvo leiki. Grikkland og Norður-Makedónía eru í öðru og þriðja sæti riðilsins með tvö stig og Tyrkir reka lestina án stiga. Sigur annað kvöld ætti því að fara langleiðina með að tryggja Íslandi efsta sæti riðilsins.

bjarnih@mbl.is