Gunnlaugur Valdimarsson fæddist í Flatey á Breiðafirði 20. maí 1927. Hann lést á St. Fransiskussjúkrahúsinu í Stykkishólmi 27. mars 2019.

Foreldrar hans voru Ingigerður Sigurbrandsdóttir frá Skáleyjum, Breiðafirði, f. 22. ágúst 1901, d. 26. janúar 1994, og Valdimar Sigurðsson frá Hvítanesi í Ögurhreppi, f. 25. júní 1898, d. 26. september 1970. Alsystkini Gunnlaugs eru:

Guðlaug, f. 14. nóvember 1919, d. 2016, Karitas Svanhildur, f. 30. mars 1924, d. 14. desember 1925, Ingibjörg, f. 29. júní 1925, d. 26. janúar 2013, Gunnar Hafsteinn, f. 21. júní 1928, d. 14. febrúar 1996, Jón Þorberg, f. 16. nóvember 1929, d. 12. október 2018, Sigurður Óli, f. 11. janúar 1931, Kristinn Sigvaldi, f. 2. júní 1932, d. 20. október 2001, Ingvar Einar, f. 21. desember 1933, d. 17. janúar 2019, Fífill Héðinn, f. 19. október 1935, Svanhildur Theodóra, f. 4. september 1937, Guðbrandur, f. 5. desember 1940, Kristrún Inga. f. 16. maí 1942, d. 25. ágúst 2018, og Kristín Jóhanna, f. 5. ágúst 1943, d. 3. mars 2018.

Hálfsystkini samfeðra eru: Guðmundína Lilja, f. 24. febrúar 1948, Ólöf Sigmars, f. 24. júní 1949, Helgi, f. 16. júlí 1950, og Guðmundur, f. 20. nóvember 1951, d. 21. janúar 1977.

Hálfsystir sammæðra er Elín Breiðfjörð, f. 18. júlí 1945.

Sambýliskona Gunnlaugs var Oddbjörg Sonja Einarsdóttir, f. 18. desember 1920, d. 17. febrúar 1995.

Synir þeirra eru: 1) Einar D.G., f. 13. nóvember 1946, kvæntur Þóru Margréti Sigurðardóttur, f. 29. október 1950. 2) Yngvinn Valdimar, f. 27. september 1951, kvæntur Jóhönnu Þorleifsdóttur, f. 19. júlí 1952.

Gunnlaugur var kvæntur Sigrúnu Sigurgeirsdóttur, f. 23. apríl 1935 á Ísafirði.

Gunnlaugur verður jarðsunginn frá Ísafjarðarkirkju í dag, 9. apríl 2019, klukkan 14.

Sæll, sonur sæll.

Ég er á mjög fallegum stað sem ég má ekki segja þér hver er. Hér sól og blíða og mér líður vel og allt er í góðu lagi.

Þannig byrjaði símtal við föður minn fyrir mörgum árum þegar hann var háseti á varðskipi Landhelgigæslunnar. Varðskipsmenn máttu ekki segja hvar þeir voru niðurkomnir þegar þeir höfðu samband við ættingja símleiðis. Grunur minn er sá að hann hafi verið í Stykkishólmi við Breiðafjörð. Þannig myndi sennilega hljóma símtal frá föður mínum í dag því hann er kominn á fallegan stað þar sem honum líður vel og vel er tekið á móti honum og sérstaklega að afastráknum sem honum var svo kær, honum Jóa okkar.

Faðir minn var alinn upp í Rúfeyjum í Breiðafirði í hópi margra systkina. Vann hann ýmis bústörf til sjós og lands. Veiddi fisk, fugl og sel, tíndi egg og dún. Virkjaði hönd og huga við veiðar, bátasmíði og vélaviðgerðir. Vandvirkni, hugulsemi og atorka fylgdi föður mínum í hverju verki. Snemma ýtti faðir minn bát úr vör og lagði í ölduna. Sjómennska var honum allt hvort sem var á trillum, minni bátum, varðskipum eða millilandaskipum. Stundum var mikil mótbára sem hann sigldi einfaldlega í gegnum af kunnáttu og rósemi með sjómannsbænina á vörum sér. Þær voru ófáar sjóferðirnar okkar pabba.

Minningar streyma fram. Bæði innanlands og utan. Hvort það var á stærri bátum eða trillum úti á Faxaflóa eða frá Hólminum út á Breiðafjörðinn til að ná í fisk í soðið eða sigling um skerin og eyjarnar sem hann gat nefnt allar með nafni og fannst fallegar. Og þegar í land var komið þótti honum ekkert skemmtilegra en að dytta að bátnum. Þó að það þyrfti að skipta um hvert borð og nagla í bátnum var það unnið af föður mínum af natni og vandvirkni.

Ófáar stundirnar áttum við saman í hesthúsinu og hestaferðirnar okkar voru þvílík ævintýri að minningar um þær gleymast ekki. Föður mínum þótti heldur ekki leiðinlegt að ferðast um landið sitt fagra og margar ævintýraferðir fórum við um landið þar sem hann kenndi mér veiðiskap og að búa til te úr blómum og jurtum.

Ketilkaffið hans var það besta í heimi. Hann kenndi mér að nýta alla veidda bráð hvort sem það var fiskur, fugl eða jafnvel selur. Æska landsins var honum kær en faðir minn starfaði um tíma sem skátaforingi í skátahreyfingunni.. Starfssvið föður míns var í mörg ár verkamannavinna og sjómennska og þá helst við vélgæslu bæði á fiskiskipum og farskipum.

Faðir minn vann hjá Vatnsveitu Reykjavíkur sem verkstjóri og lagerstarfsmaður þar sem hann lauk starfævi sinni. Eftir andlát sambýliskonu sinnar kynntist hann eftirlifandi eiginkonu sinni, Sigrúnu Sigurgeirsdóttur frá Ísafirði. Þau hófu búskap á Ísafirði en fluttu þaðan í Stykkishólm þar sem þau bjuggu saman síðan.

Nú syrgir tengdadóttir tengdaföður sinn, dætur mínar góðan afa og barnabarnabörnin langafa sin. Gulli afi kom fram við þau af kærleika og ástúð. Við biðjum góðan Guð að blessa Sigrúnu í söknuði hennar og gefa henni styrk. Hvíl í friði, pabbi minn.

Yngvinn.