„Ekki hefur fjölgað mikið hjá WOW, en þeir eru orðnir um 740,“ segir Unnur Sverrisdóttir, starfandi forstjóri Vinnumálastofnunar, spurð hvort fleiri fyrrverandi starfsmenn félagsins hafi sótt um að komast á atvinnuleysisskrá.

„Ekki hefur fjölgað mikið hjá WOW, en þeir eru orðnir um 740,“ segir Unnur Sverrisdóttir, starfandi forstjóri Vinnumálastofnunar, spurð hvort fleiri fyrrverandi starfsmenn félagsins hafi sótt um að komast á atvinnuleysisskrá. „Þessar tölur eru fyrir WOW, en svo er 701 umsókn frá fólki sem hefur starfað hjá öðrum fyrirtækjum, þannig að það er nú mikið að gera.“ Vegna fjölda umsókna hefur stofnunin hafið skoðun á því hvort þörf sé á því að fjölga starfsfólki, að sögn Unnar, sem tekur fram að mest mæði á greiðslustofu atvinnuleysisbóta og í þjónustuveri. Þá verður bætt við sumarstarfsmönnum og staðan endurmetin í haust.

Bundnar eru vonir við að dragi úr nýjum umsóknum í ljósi þess að samið var um kjarasamninga nýverið sem gæti leitt til meiri róar á vinnumarkaði. „Ég á ekki endilega von um það að allt þetta fólk fari á atvinnuleysisbætur,“ segir Unnur og útskýrir að margir skrái sig atvinnulausa í þeim tilgangi að tryggja sig, en finni síðan nýtt starf áður en til þess kemur að þeir þurfi atvinnuleysisbætur. „Það eru að koma bestu mánuðirnir í ráðningum, maí og júní.“

Hún segir þungann vera á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum og hafa stofnuninni borist rúmlega þúsund umsóknir frá höfuðborgarsvæðinu og 368 af landsbyggðinni, þar af eru 213 af Suðurnesjum. gso@mbl.is