Barnamenning Börnin í Dalskóla standa fyrir sýningunni Dýr og furðuverur á Listasafni Reykjavíkur.
Barnamenning Börnin í Dalskóla standa fyrir sýningunni Dýr og furðuverur á Listasafni Reykjavíkur. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Veronika Steinunn Magnúsdóttir veronika@mbl.is Barnamenningarhátíð í Reykjavík er sett í 9. sinn í dag og stendur til 14. apríl. Opnunarhátíðin verður í Eldborg Hörpu þar sem grunnskólanemendum í 4. bekk er boðið upp á tónleika og skemmtiatriði.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

Barnamenningarhátíð í Reykjavík er sett í 9. sinn í dag og stendur til 14. apríl. Opnunarhátíðin verður í Eldborg Hörpu þar sem grunnskólanemendum í 4. bekk er boðið upp á tónleika og skemmtiatriði. Að opnuninni lokinni hefjast tónleikar leikskólabarna úr 32 leikskólum Reykjavíkur í Eldborg.

Borgin verður undirlögð af menningarviðburðum á næstu dögum en sérstök áhersla er lögð á þátttöku barna í menningu og listum yfir hátíðina, að sögn Hörpu Rutar Hilmarsdóttur, verkefnastjóra barnamenningar hjá Reykjavíkurborgar.

„Hugmyndin á bak við hátíðina er að auka sýnileika þess sem börnin leggja til menningar en líka að bjóða þeim tækifæri til að upplifa fjölbreytta menningu. Það er margt sem rúmast innan þessarar hátíðar sem tengist menningu barna,“ segir Harpa og bætir við að allir viðburðir hátíðarinnar séu ókeypis.

Samsöngur 760 leikskólabarna

Á opnunardeginum í Hörpu fara fram tónleikarnir Lífið er heimsins besta gotterí þar sem 760 leikskólabörn úr 32 leikskólum Reykjavíkurborgar koma saman og syngja og leika lög eftir Jóhann G. Jóhannsson. Börnin hafa æft sönglögin í leikskólanum í febrúar og mars en á þriðjudaginn koma þau saman og syngja ásamt hátíðarhljómsveit Tónskóla Sigursveins.

Þá fara fram tónleikarnir Upptakturinn á opnunardeginum í Hörpu þar sem þekktir tónlistarmenn flytja valin verk barna. Með verkefninu voru börn hvött til að setja saman tónsmíð eða drög að tónsmíð, óháð tónlistarstíl og senda inn í keppni í febrúar. Höfundar þeirra verka sem urðu fyrir valinu fengu því tækifæri til að fullvinna verk sín með aðstoð fagmanna.

Boðið verður upp á samsöngstónleika í Gerðubergi í dag kl. 17 þar sem ÁsbjörgJónsdóttir og Auður Gudjohnsen kynna ný sönglög.

Harpa segir langan undirbúning liggja að baki hátíðarinnar: „Margir viðburðir hátíðarinnar eru undirbúnir í marga mánuði. Ekki er um eina sýningu sem tekur klukkustund að ræða heldur hefur ferlið staðið yfir síðan í haust. Þetta er þátttökuhátíð og við auglýsum styrki svo að listhópar, skólar og menningarstofnanir geti sótt um styrki til hátíðarinnar og skapað viðburði.“

Þrautaleikur á ljósmyndasafni

Hátíðin samanstendur af fjölbreyttri dagskrá um alla borgina og verða viðburðir haldnir meðal annars í Listasafni Reykjavíkur, Sjóminjasafninu í Reykjavík, Gerðubergi og Eldborg. Á Sjómannasafninu í Reykjavík verður gestum boðið að setja upp sýndarveruleikagleraugu og kafa neðansjávar í Breiðafirði. Þar geta gestir verið „viðstaddir“ þar sem hollenska kaupskipið Melckmeyt strandaði árið 1659 en skipið liggur þar enn. Með gleraugunum og hjálp sérfræðinga safnsins verður hægt að skoða skipsflakið sögufræga.

Á Ljósmyndasafninu í Reykjavík verður einnig nóg um að vera yfir hátíðina en þar verður þrautaleikur um sýningu Páls Stefánssonar, ...núna . Á sýningunni verður landslagsmyndum frá Íslandi og ljósmyndum af flóttamönnum um víða veröld teflt saman og gerir það gestum og gangandi kleift að velta fyrir sér lífi og aðstæðum barna á ólíkum tímum.

Tónleikar með Emmsjé Gauta

Helgina 13.-14. apríl verður barnamenningarhátíðin haldin hátíðleg í Breiðholti í fyrsta sinn. Þá verður menningarmiðstöðinni í Gerðubergi umbreytt í svokallaða Ævintýrahöll þar sem tónlist, myndlist, leiklist og föndur er meðal þess sem ber hæst. Á lokadegi hátíðarinnar verða tónleikar með rapparanum Emmsjé Gauta.

Hátíðin hefur fest sig vel í sessi í Reykjavík. Fyrst var hún haldin árið 2010, síðan árið 2012 en hún hefur farið fram árlega síðan þá. „Það er ótrúlega skemmtilegt að skipuleggja þessa hátíð því það vilja allir vera með og opna dyrnar til að skapa tækifæri fyrir börn,“ segir Harpa. Allar nánari upplýsingar má nálgast á vefnum: barnamenningarhatid.is.