Stigahæstur Kevin Capers skorar tvö af 32 stigum sínum fyrir ÍR í Breiðholtinu í gær. Hlyni Bæringsson fyrirliða Stjörnunnar líst ekki á blikuna.
Stigahæstur Kevin Capers skorar tvö af 32 stigum sínum fyrir ÍR í Breiðholtinu í gær. Hlyni Bæringsson fyrirliða Stjörnunnar líst ekki á blikuna. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Breiðholti Kristján Jónsson kris@mbl.is ÍR-ingar eru engin lömb að leika sér við á heimavelli sínum í Hellinum í Breiðholti og jöfnuðu í gær rimmuna gegn Stjörnunni í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik.

Í Breiðholti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

ÍR-ingar eru engin lömb að leika sér við á heimavelli sínum í Hellinum í Breiðholti og jöfnuðu í gær rimmuna gegn Stjörnunni í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik. ÍR sigraði 85:76 eftir að hafa komist í stuð í sókninni í síðari hálfleik og er staðan nú 1:1. Næsti leikur verður í Garðabænum en vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslit.

„Menn eru ferskir og sérstaklega ferskir í höfðinu. Menn vilja vera í þessari stöðu og það skiptir miklu máli,“ sagði ÍR-ingurinn Matthías Orri Sigurðarson í samtali við Morgunblaðið þegar sigurinn var í höfn. Eftir að hafa spilað fimm leiki gegn sterku liði Njarðvíkur, og nú tvo gegn deildar- og bikarmeisturum Stjörnunnar, segir Matthías þreytu ekki vera vandamál.

„Maður verður ekki þreyttur þegar maður spilar í stemningu þar sem maður heyrir varla í sjálfum sér vegna þess að allir eru bandbrjálaðir í stúkunni. Við sækjum orku þangað en auk þess er jákvætt að fá þrjá daga á milli leikja,“ sagði Matthías sem dró vagninn í sókninni hjá ÍR í fyrri hálfleik og skoraði þá 12 stig.

Félagar hans spiluðu ekki nægilega vel í sókninni í fyrri hálfleik en í þriðja leikhluta kviknaði á Kevin Capers, því hæfileikaríka ólíkindatóli. Capers skoraði 18 stig í þriðja leikhluta og smám saman hresstust einnig Gerald Robinson og Sigurður Þorsteinsson. Ein af hetjum ÍR í gær var þó Daði Berg Grétarsson. Spilaði hann sinn fyrsta leik í langan tíma og stóð sig mjög vel í því að valda snillinginn Brandon Rozzell sem skoraði aðeins níu stig. Telst það lítið á þeim bænum.

Bæði lið spiluðu raunar góða vörn í fyrri hálfleik en þá var baráttan í fyrirrúmi og lítið skorað. Stjarnan lék ekki beinlínis illa í þessum leik nema þá helst á síðustu fjórum mínútunum og ekki var um slaka frammistöðu þeirra að ræða á heildina litið. ÍR er einfaldlega stuðlið sem getur unnið hvaða lið sem er á heimavelli. Það eru ekki ný tíðindi. Þannig hefur það verið í mörg ár.

ÍR – Stjarnan 85:76

Hertz-hellirinn, undanúrslit karla, 2. leikur, mánudag 8. apríl 2019.

Gangur leiksins : 3:4, 8:13, 11:13, 16:16, 18:16, 20:24, 23:31, 28:34 , 34:40, 39:46, 47:54, 57:56 , 62:68, 69:70, 77:72, 85:76.

ÍR: Kevin Capers 32/8 stoðsendingar, Matthías Orri Sigurðarson 20, Gerald Robinson 15/10 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 12/11 fráköst/7 stoðsendingar, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 6.

Fráköst : 24 í vörn, 6 í sókn.

Stjarnan : Hlynur Elías Bæringsson 22/5 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 15/4 fráköst/5 stoðsendingar, Antti Kanervo 12, Collin Anthony Pryor 11/6 fráköst, Brandon Rozzell 9/8 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 3, Filip Kramer 2, Tómas Þórður Hilmarsson 2.

Fráköst : 21 í vörn, 7 í sókn.

Dómarar : Kristinn Óskarss., Jóhannes Friðrikss., Gunnlaugur Briem.

Áhorfendur : 863.

*Staðan er 1:1.