Addi, eins og hann var ætíð kallaður, fæddist 20. mars 1920 á Eystri-Leirárgörðum, Leirár- og Melahreppi. Hann lést á Dvalarheimilinu Höfða 31. mars 2019.

Foreldrar Adolfs voru Einar Gíslason, f. 6. febrúar 1876, d. 16. júlí 1951, bóndi á Eystri-Leirárgörðum, og Þórhanna Málmfríður Jóhannesdóttir, f. 3. apríl 1894, d. 1. apríl 1977, húsmóðir.

Systkini Adda voru Theodór, f. 1908, Óskar, f. 1912, Guðfinna, f. 1916, Jóhannes, f. 1917, Hannes, f. 1920, Guðrún, f. 1923, og Guðríður, f. 1929.

Adolf bjó alla sína tíð ásamt Hannesi tvíburabróður sínum og Ólöfu eiginkonu Hannesar á Eystri-Leirárgörðum. Þeir bræður Adolf og Hannes tóku við búskapnum árið 1949 og voru með kýr, kindur og hesta þangað til Magnús og síðar Hannes Adolf tóku við búskapnum. Hann vann að búskapnum eins og heilsan og vinnuþrek leyfði með þeim feðgum.

Útför Adolfs fer fram frá Leirárkirkju í dag, 9. apríl 2019, klukkan 15.

Elsku Addi afi minn.

Það er skrítið að hugsa til þess að þú sért ekki lengur hjá okkur en ég veit að þú ert kominn á betri stað, til afa og Svölu, keyrandi um á traktornum þínum alsæll að skoða kindur.

Þú varst búinn að lifa góðu og löngu lífi sem bóndi á Eystri-Leirárgörðum. Þar bjóstu alla þína tíð og vannst við búreksturinn lengur en nokkur annar. Það eru ekki margir sem hafa verið að tína rúllur komnir yfir 95 ára aldurinn.

Ég hef alltaf litið á þig sem afa minn líka og sagði amma mér einu sinni skemmtilega sögu af afa-rifrildi okkar systkina. Við vorum að þrátta um hver ætti hvaða afa. Hannes sagðist eiga afa Hannes, Bjössi átti afa Bjössa og þá sagði ég kokhraust að ég ætti afa Adda.

Ég hef alltaf verið stolt af því að eiga ykkur tvo sem afana mína og hef ég alltaf talað um ykkur sem „amma og afarnir“. Mér fannst og finnst enn gaman að sjá viðbrögð fólks við því þegar afarnir eru sagðir í fleirtölu. Svo taka við útskýringar á þessu, sem mér finnast enn í dag mjög skemmtilegar.

Mér fannst alltaf gaman að koma út í fjós til þín þegar þú varst að fara með vísur eða raula texta. Þú varst alltaf svo brosandi og glaður, fíflaðist í mér hvort ég kynni ekki vísurnar og lést mig fara með þær með þér. Það eru fáir sem eiga jafn margar glettnar setningar og þú. Þegar þú varst að fussa og sveia yfir einhverju eða koma með fyndnar glefsur um fólkið í kringum þig, það var oft óborganlegt.

Ég var svo heppin að eignast þig sem afa líka og nú þegar þú ert farinn þá á ég minningarnar sem mér þykir óendanlega vænt um og munu fylgja mér um ókomna tíð. Hvíldu í friði, elsku Addi minn.

Þín Ella.

Elín Málmfríður

Magnúsdóttir.

Ég var svo lánsamur að fá tvo föðurafa í vöggugjöf, tvíburabræðurna afa og Adda. Þegar ég var að alast upp í sveitinni var frábært að geta leitað yfir til ömmu og bræðranna af hvaða tilefni sem er, hvort sem það var að leika sem barn, sníkja pening eða fá eitthvað gott að borða. Ég átti í raun og veru tvö heimili enda hlið við hlið.

Alltaf var tekið vel á móti mér og þar var Addi engin undantekning.

Síðar þegar ég fór að vinna á bænum sem unglingur, þá var ekki heyskapur nema hafa Adda á rauða Massey Ferguson-traktornum.

Þú varst þá að múga, tína upp rúllur af túnunum eða rúntandi um. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að þú hafir unnið þangað til þú varst næstum því hundrað ára, það eru vandfundin önnur eins hörkutól.

Ég á eftir að sakna þess að kíkja yfir og heyra þig fara með kaldhæðnar vísur hátt og snjallt en að sama skapi er ég mjög þakklátur fyrir allar stundirnar sem við áttum saman.

Minningarnar um góðan mann munu lifa áfram.

Þinn frændi,

Davíð Ingi Magnússon.