Millibankamarkaður Heildarveltan nam 32,2 milljörðum í marsmánuði.
Millibankamarkaður Heildarveltan nam 32,2 milljörðum í marsmánuði. — Morgunblaðið/Golli
Heildarvelta á millibankamarkaði með gjaldeyri nam 235 milljónum evra í marsmánuði en það jafngildir 32,2 milljörðum króna. Veltan hefur ekki verið meiri síðan í júlí árið 2017 en þá nam hún 329 milljónum evra.

Heildarvelta á millibankamarkaði með gjaldeyri nam 235 milljónum evra í marsmánuði en það jafngildir 32,2 milljörðum króna. Veltan hefur ekki verið meiri síðan í júlí árið 2017 en þá nam hún 329 milljónum evra.

Af þessari veltu nam inngrip Seðlabanka Íslands jafnvirði ríflega 4,5 milljarða króna. Hlutur Seðlabankans í veltu mánaðarins var því 14,1%. Inngrip bankans hafa ekki verið meiri síðan í maí 2017 en þá var bankinn aftur á móti að draga úr styrkingu. Reyndar stappaði inngrip hans í desember síðastliðnum nærri þeirri fjárhæð sem nú varð raunin en þá nam það tæplega 4,5 milljörðum króna.

Halldór Kári Sigurðarson, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, segir að bankinn hafi þrívegis gripið inn í markaðinn í mánuðinum til að styðja við gengi krónunnar.

„Bankinn var búinn að gefa það út að hann myndi ekki láta krónuna veikjast vegna útflæðis aflandskróna. Bankinn fór því á móti útflæði aflandskróna hinn 5. mars þegar aflandskrónufrumvarpið tók gildi. Hann greip svo inn í að nýju 26. mars en hann gerði það einnig 28. mars í kjölfar gjaldþrots WOW air.“

Halldór Kári segir að það veki nokkra eftirtekt að síðastnefnda inngripið hafi ekki náð milljarði króna.

„Þetta voru um 830 milljónir króna en yfirleitt nema inngripin að minnsta kosti milljarði. Það er í raun forvitnilegt að ekki hafi þurft meira til að styðja við gengi krónunnar í kjölfar þessara tíðinda.“

Bendir Halldór Kári raunar á að frá því að flugfélagið fór á hausinn hafi gengi krónunnar styrkst um 2,5% en seigla krónunnar undanfarið skýrist væntanlega hvað helst af afnámi bindiskyldunnar.