Þjálfun Þorlákur Már Árnason yfirmaður knattspyrnumála hjá Hong Kong á æfingu hjá U23 ára karlalandsliði Asíuþjóðarinnar.
Þjálfun Þorlákur Már Árnason yfirmaður knattspyrnumála hjá Hong Kong á æfingu hjá U23 ára karlalandsliði Asíuþjóðarinnar. — Ljósmynd/HKFA
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hong Kong Víðir Sigurðsson vs@mbl.is „Þetta kom upp nýlega vegna þess að aðstoðarþjálfari liðsins er að taka „Pro Licence“-þjálfararéttindin í Kína í ár. Mixu óskaði eftir því að fá mig með sér og þegar ég var búinn að fá staðfestingu á að ég mætti gera þetta af fullum krafti frá stjórn sambandsins þá ákvað ég að taka slaginn,“ segir Þorlákur Már Árnason, sem frá áramótum hefur verið yfirmaður knattspyrnumála hjá knattspyrnusambandi Hong Kong, en í dag tekur hann jafnframt við starfi aðstoðarþjálfara karlalandsliðs þjóðarinnar og gegnir því út þetta ár.

Hong Kong

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

„Þetta kom upp nýlega vegna þess að aðstoðarþjálfari liðsins er að taka „Pro Licence“-þjálfararéttindin í Kína í ár. Mixu óskaði eftir því að fá mig með sér og þegar ég var búinn að fá staðfestingu á að ég mætti gera þetta af fullum krafti frá stjórn sambandsins þá ákvað ég að taka slaginn,“ segir Þorlákur Már Árnason, sem frá áramótum hefur verið yfirmaður knattspyrnumála hjá knattspyrnusambandi Hong Kong, en í dag tekur hann jafnframt við starfi aðstoðarþjálfara karlalandsliðs þjóðarinnar og gegnir því út þetta ár.

Finninn Mixu Paatelainen, sem áður var m.a. samherji Guðna Bergssonar hjá Bolton í enska fótboltanum, hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Hong Kong og Þorlákur verður við hlið hans næstu mánuðina, eftir að hafa m.a. haft það verkefni með höndum að finna nýjan þjálfara og ráða Finnann í starfið.

Þorlákur segir að þetta muni ganga upp hjá sér næstu mánuðina en hann vilji í framhaldinu geta einbeitt sér að aðalstarfinu sem yfirmaður knattspyrnumála.

„Það jákvæða við þetta er að ég hef unnið með U23 landsliðinu síðustu vikur og ég sé nokkra leikmenn þaðan koma inn í A-landsliðið núna. Ég hef hins vegar lagt áherslu á að ég vilji eingöngu sinna þessu ásamt mínu aðalstarfi út árið þar sem ég hef mikið á minni könnu,“ sagði Þorlákur við Morgunblaðið.

Fyrsta verkefni landsliðsins með Paatelainen og Þorlák við stjórnvölinn er vináttulandsleikur gegn Taívan í júní og síðan fer liðið í undankeppni HM 2022 í september og leikur þá sex leiki af tíu í undanriðlinum á þremur mánuðum. Liðið er í 141. sæti á heimslista FIFA, í 27. sæti af 46 Asíuþjóðum sem hefjast í haust keppni um fjögur til fimm sæti í lokakeppni HM sem fram fer í Katar 2022.

Legg til róttækar breytingar

Þorlákur segir að margt hafi breyst síðan hann skrifaði undir samning við knattspyrnusamband Hong Kong í desember.

„Já, það hefur margt breyst á stuttum tíma. Gary White, þjálfari A-landsliðs karla, sagði starfi sínu lausu eftir þrjá mánuði til að taka við liði í 2. deild í Japan og þýskur unglingalandsliðsþjálfari hætti eftir tíu daga í starfi. Þetta er eitthvað sem getur gerst í félagsfótbolta en mjög sjaldgæft hjá knattspyrnusamböndum. Ég get alveg viðurkennt að það var ekki mjög spennandi að koma inn í svona aðstæður.

Þetta hefur hins vegar gengið vel hingað til og sambandið hefur tekið mjög vel í þær áherslur og breytingar sem ég hef viljað gera. Ég er því fyrst og fremst þakklátur fyrir það gríðarlega traust sem þeir hafa sýnt mér. Ég er að leggja til nokkuð róttækar breytingar, sérstaklega hvað varðar val á leikmönnum. Sambandið sjálft hefur verið með úrtökulið allt frá 9 ára aldri sem ég vil leggja niður enda ætti það ekki að vera í verkahring knattspyrnusambanda að þjálfa börn, heldur félaganna í landinu. Þá er meðalaldur leikmanna efstu deildar í Hong Kong mjög hár og ungir leikmenn fá lítil tækifæri þannig að við erum að skoða núna að vera með okkar eigin U23 lið í deildinni líkt og gert er í Japan, Singapúr og fleiri löndum.

Það sem kemur manni kannski mest á óvart er starfsmannaveltan almennt í fótboltanum í Asíu. Samningar við leikmenn og þjálfara eru mjög stuttir, flestir til eins árs. Þetta er auðvitað ekki gott þegar er verið að gera langtímaáætlanir eða markmið en svona er skipulagið hérna,“ sagði Þorlákur.

Mjög gott vinnuumhverfi

Hong Kong er lítið land að flatarmáli en er fjórða þéttbýlasta land í heimi. Þar búa um 7,5 milljónir á landsvæði sem er um það bil einn tíundi af stærð Íslands. Þorlákur er ánægður með margt.

„Vinnuumhverfið er mjög gott og þekking á meðal þjálfara og starfsmanna er betri en ég átti von á. Við erum með faglegt knattspyrnusvið sem vinnur náið saman og erum einmitt að klára að gera langtímaáætlun til næstu fimm ára sem inniheldur allar áherslur landsliða og kennsluaðferðir Þessi áætlun fer til allra félaga í Hong Kong í lok sumars.

Við búum auðvitað að því á Íslandi að eiga frábæra yngriflokkaþjálfara þannig að stundum missi ég mig í því að miða við þá. En það eru nokkrir efnilegir þjálfarar að koma upp hér sem við erum að styðja sérstaklega við til að gera þá betri.

Sambandið tók í notkun frábæra æfingaaðstöðu sem inniheldur þrjá gervigrasvelli og tvo grasvelli ásamt kennsluaðstöðu. Þetta hefur gjörbreytt aðstöðu landsliðanna en ekki síður þjálfaramenntuninni. Ég held jafnvel að áhrifin séu meiri þar, að geta verið með bóklega og verklega kennslu á sama stað eykur gæðin mikið.“

Líkir Íslendingum

Þorlákur hefur mikla reynslu af þjálfun á Íslandi og starfaði um skeið á Svíþjóð en segir að hann sé að sjálfsögðu kominn í annan heim.

„Stærsti munurinn fyrir mig er kannski sá að ég er kominn í þessa risastóru heimsálfu sem Asía er. Hong Kong er blanda af Asíu og Evrópu og að mínu mati er auðvelt að aðlagast lífsstílnum. Hong Kongbúar eru líkir Íslendingum, duglegt og stolt fólk sem tekur svolítinn tíma að kynnast. Asía er hins vegar bæði langfjölmennasta heimsálfan og sú langstærsta að flatarmáli og það er svo mikill munur á trúarbrögðum, hefðum og loftslagi innan Asíu. Ég fór í síðasta mánuði til Malasíu þar sem hitastigið var 35 gráður og síðan yfir til Mongólíu þar sem var 15 stiga frost. Þannig að þessi heimur er mjög frábrugðinn en ofboðslega áhugaverður. Svo er ég auðvitað í starfi sem ég hef ekki sinnt áður og er að læra nýja hluti á hverjum degi.“

170 umsóknir og nokkrar frá Íslandi

Þegar starf landsliðsþjálfara hjá Hong Kong var auglýst voru viðbrögðin gríðarleg og Íslendingar sýndu jafnvel starfinu áhuga. Þorlákur vann úr umsóknunum og réð Paatelainen til starfa eftir að hafa valið fimm þjálfara í viðtöl af þeim sem sóttust eftir starfinu.

„Já, það voru 170 umsóknir og þar af voru nokkrir Íslendingar sem sóttu um. Það er gríðarleg samkeppni um störf í knattspyrnuheiminum og svo eru laun auðvitað góð í þessum toppstörfum. Hong Kong er geysilega vinsæll staður og borgin hefur í raun svo margt að bjóða. Þannig að margir sem sækja um starfið eru ekki bara að sækjast eftir fótboltanum heldur líka lífstílnum hér. Þróunin er hinsvegar sú að ef að þjálfarar ætla að fá gott starf erlendis þá þurfa þeir skilyrðislaust að vera með „Pro Licence“ þjálfaragráðuna, svo mikil er samkeppnin,“ segir Þorlákur Árnason.