Félagsmenn í Grafíu – stéttarfélagi í prent- og miðlunargreinum, kjósa þessa dagana um tillögu um að félagið verði aðili að Rafiðnaðarsambandi Íslands.

Félagsmenn í Grafíu – stéttarfélagi í prent- og miðlunargreinum, kjósa þessa dagana um tillögu um að félagið verði aðili að Rafiðnaðarsambandi Íslands.

Í tilkynningu Grafíu til félagsmanna um atkvæðagreiðsluna segir að meginástæður áforma um aðild að RSÍ séu tvær. „Annars vegar sú mikla fækkun starfa sem hefur orðið í prentiðnaðinum, og því fækkun félagsmanna sem gerir erfiðara að viðhalda þeim réttindum sem stærri verkalýðsfélög bjóða félagsmönnum sínum. Starfandi félagsmenn GRAFÍU eru 721 í dag en heildarfjöldi félagsmanna eru 974. Og hins vegar þau tækifæri sem skapast sem hluti af stærra sambandi til að sinna kjarnaverkefnum fyrir félagsmenn á sama tíma og sótt er fram t.d. með betri þjónustu og betri nýtingu fjármuna.“

Stjórn og trúnaðarráð félagsins hvetja félagsmennina til að styðja aðildina að RSÍ og benda á að með Grafíu innanborðs verði RSÍ sterkasta iðnaðarmannasambandið með um 5.700 greiðandi félagsmenn.

Grafía var áður Félag bókagerðarmanna en nafni þess var breytt árið 2015. Félagið á rætur sínar í Hinu íslenska prentarafélagi sem var stofnað 1897 og er elsta stéttarfélag landsins með samfellda sögu. Því nafni var breytt í Félag bókagerðarmanna við sameiningu Hins íslenska prentarafélags, Bókbindarafélags Íslands og Grafíska sveinafélagsins 1980. Árið 2015 var nafni félagsins svo breytt í Grafía til að endurspegla betur störf félagsmanna en grafískir hönnuðir höfðu m.a. sameinast félaginu um seinustu aldamót.

omfr@mbl.is