Héraðsdómur Maðurinn var sýknaður.
Héraðsdómur Maðurinn var sýknaður.
Karlmaður var sýknaður af ákæru um heimilisofbeldi í Héraðsdómi Reykjaness á miðvikudaginn í síðustu viku.

Karlmaður var sýknaður af ákæru um heimilisofbeldi í Héraðsdómi Reykjaness á miðvikudaginn í síðustu viku. Eiginkona hans kom fyrir dóminn og naut aðstoðar túlks við að lýsa því yfir að hún hefði ekki greint rétt frá atvikum málsins fram að þessu og hefði hug á því að draga kæru sína í málinu til baka.

Henni var þá tjáð að það væri ekki hægt, en þá sagðist hún ekki vilja ræða málið frekar, þetta hefði verið erfiður tími fyrir hana og eiginmann hennar, þau hefðu bæði gert mistök sem þau hefðu lært af.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa, 7. janúar 2017, misþyrmt konunni á margvíslegan hátt. Konan kærði eiginmann sinn eftir atvikið og var maðurinn handtekinn.

Hún fór síðar fram á nálgunarbann gagnvart manninum, sem var í gildi auk þess sem hann sætti brottvísun af heimili þeirra í sjö mánuði eftir atvikið. Þau búa þó saman í dag.

Mat dómara var að þar sem konan hefði breytt framburði sínum og engir sjónarvottar væru að verknaðinum þætti sekt mannsins ekki nægilega sönnuð.