Mjaldrar Litla-Grá og Litla-Hvít eru enn í Sjanghæ í Kína.
Mjaldrar Litla-Grá og Litla-Hvít eru enn í Sjanghæ í Kína.
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Komu mjaldra-systranna, Litlu-Gráar og Litlu-Hvítar, hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er líklegt að mjaldrarnir komi ekki fyrr en í maí eða jafnvel júní.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Komu mjaldra-systranna, Litlu-Gráar og Litlu-Hvítar, hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er líklegt að mjaldrarnir komi ekki fyrr en í maí eða jafnvel júní. Á föstudaginn var ákveðið að fresta komu mjaldranna vegna veðurs og lokunar Landeyjahafnar en unnið var að því að koma þeim til landsins sem fyrst.

Mjaldrarnir áttu að koma til landsins klukkan níu í dag með sérútbúinni flutningavél Cargolux en ljóst er að ekkert verður úr því. Dýpkun Landeyjahafnar er enn ólokið og olli það mestu um frestunina ásamt slæmri veðurspá. Aðstandendur verkefnisins, Merlin Entertainment og góðgerðarsamtökin Sealife Trust, treysta mjöldrunum ekki til að þola flutning með Herjólfi frá Þorlákshöfn til Eyja, en sú sigling getur tekið þrjá tíma en sigling úr Landeyjahöfn tekur að jafnaði um hálftíma.

Fljúga átti með mjaldrana frá Sjanghæ í Kína til Íslands. Þeir áttu síðan að fara með bílum TVG Zimsen til Vestmannaeyja þar sem þeir myndu verða settir í sóttkví í nokkrar vikur áður en þeim yrði síðan komið fyrir í Klettsvík. Engar upplýsingar fengust um hvenær þessi ferð verður farin en sem fyrr segir gæti verið mánuður jafnvel tveir mánuðir í það.