[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnús Heimir Jónasson Guðmundur Sv. Hermannsson Þórunn Kristjánsdóttir „Hún er hjarta Parísar og þess vegna er þjóðin svona sorgmædd. Hjartað er að brenna og þegar hjartað brennur þá hrynur allt,“ segir Laufey Helgadóttir, listfræðingur og leiðsögumaður, um stórbrunann í Notre-Dame kirkjunni í París. Eldur kviknaði í þaki kirkjunnar síðdegis í gær og var hún í ljósum logum alveg fram á tíunda tímann í gærkvöldi.

Magnús Heimir Jónasson

Guðmundur Sv. Hermannsson

Þórunn Kristjánsdóttir

„Hún er hjarta Parísar og þess vegna er þjóðin svona sorgmædd. Hjartað er að brenna og þegar hjartað brennur þá hrynur allt,“ segir Laufey Helgadóttir, listfræðingur og leiðsögumaður, um stórbrunann í Notre-Dame kirkjunni í París. Eldur kviknaði í þaki kirkjunnar síðdegis í gær og var hún í ljósum logum alveg fram á tíunda tímann í gærkvöldi.

Laufey hefur búið í Parísarborg í meira en 40 ár og heimsótt kirkjuna ótal sinnum. „Það eru allir afskaplega sorgmæddir og fólk er bara grátandi. Þetta er mjög átakanlegt,“ bætir hún við.

Hún segir kirkjuna vera tákn Parísarborgar á allt annan hátt en t.d Eiffel-turninn sem er 19. aldar bygging enda hefur kirkjan staðið þarna síðan á miðöldum og borgin byggðist í kringum hana. „Ég bjó þarna rétt hjá. Hún er á borgareyjunni sem er eyjan á Signu, þar sem París byrjaði að byggjast. Ég bjó í fimmta hverfi fyrsta árið mitt í París sem er rétt hjá. Svo bjó ég í 14 ár í Mýrinni, þannig að ég hef búið mjög lengi nálægt henni. En það er alveg sama þó maður búi ekki nálægt henni, þessi kirkja er þannig að návist hennar er svo gríðarlega sterk. Hún er miðpunkturinn. Það var byrjað að byggja hana árið 1163 og lokið við hana árið 1330,“ segir Laufey.

Hefur leitt Íslendinga um kirkjuna

Laufey hefur leitt hundruð Íslendinga í ferðir um Notre-Dame kirkjuna og eflaust eiga margir Íslendingar minningar úr þeim ferðum. „Það er nú þannig að þegar maður sér byggingar oft þá þykir manni alltaf vænna og vænna um þær og einnig minnisvarða. Ég hef líka farið með ófáa Íslendinga í siglingu um Signu. Þá siglir maður alltaf meðfram Notre-Dame. Það er stórkostlegt þegar maður siglir á kvöldin meðfram Notre-Dame og horfir á hana upplýsta. Ég held að ekkert sé eins fallegt eða mér allavega finnst mér ekkert eins fallegt. Þá sér maður rósagluggana og svifstoðirnar sem halda útveggjunum uppi. Maður er náttúrlega bara að biðja núna, ég veit ekki til hvers því maður er ekki trúaður, að þetta fari ekki allt saman. Það er burðargrind þaksins sem er að brenna en ég veit ekki hvort steinninn stendur ennþá. Ef eldurinn fer í bogana þá hrynur kirkjan og þá fara gluggarnir og allt,“ sagði Laufey í gærkvöldi. Slökkviliðsmönnum tókst að bjarga stærstum hluta burðarvirkis Notre-Dame frá eyðileggingu seint í gærkvöld.

Vagga gotneska stílsins

Laufey segir kirkjuna ekki bara mikilvæga fyrir Parísarbúa heldur heiminn allan. Endurspeglast það í því hvernig erlendir þjóðhöfðingar hafa tjáð sig um brunann.

„Þegar maður heyrir hvað erlendir þjóðhöfðingar eru að segja þá er náttúrlega bara eins og einhver persóna sé nýdáin. Það segir líka hvað hún er mikilvæg fyrir heiminn, kaþólsku trúna og bara sem bygging. Hún er á heimsminjaskrá UNESCO og hefur verið það lengi. Þetta er snemmgotnesk bygging. Vagga gotneska stílsins er í Frakklandi. Maður getur endalaust þulið upp staðreyndir um mikilvægi hennar. Svo margir merkilegir sögufrægir atburðir sem hafa gerst í kirkjunni. Napóleon Boneparte var krýndur þarna, Loðvík fjórtandi gifti sig þarna, Mitterrand var jarðsunginn þarna,“ segir Laufey. Hún segir að lokum íbúa vera í uppnámi rétt eins og hún sjálf. „Maður grætur, ég get sagt þér það, maður fékk alveg kökk í hálsinn. Ég trúði þessu ekki, ég hélt að þetta væri aprílgabb. Þegar ég heyrði þetta í útvarpinu fyrst gat ég ekki trúað þessu. Svo sá ég náttúrlega þegar ég kveikti á sjónvarpinu að þetta var satt. Vonandi ná þeir að stöðva þetta og svo byggja þeir upp aftur.“

Tap á við brunann í Kaupmannahöfn árið 1728

Jónas Haraldsson, sem vinnur í íslenska sendiráðinu í París, átti erfitt með að finna orð til að lýsa mikilvægi kirkjunnar þegar Morgunblaðið hafði samband í gær. „Þetta er náttúrlega alveg ótrúlegt satt best að segja. Mann eiginlega skortir orð til þess að lýsa þessu,“ sagði Jónas. Spurður um mikilvægi kirkjunnar, segir hann kirkjuna vera eitt af kennileitum Parísar. „Þetta er bara eins og ef Eiffel-turninn myndi falla. Öll sagan, menningarverðmætin og menningarfurinn. Ein fransk-íslensk stelpa sagði við mig að þetta væri eins og handritabruninn í Kaupmannahöfn,“ segir Jónas og vísar þar til þess þegar fjöldi íslenskra handrita glataðist í stórbruna í Kaupmannahöfn árið 1728.

Drottningin sem stendur keik

Kristín Jónsdóttir, betur þekkt sem Parísardaman, sagðist vera í algjöru sjokki þegar mbl.is hafði samband við hana í gærkvöldi.

„Þetta er mjög átakanlegt. Ég veit að þetta er ekki manneskja en ég er eiginlega hissa á því hversu mikið þetta fær á mig,“ sagði Kristín í gærkvöldi. „Þetta er drottningin sem stendur þarna keik. Allur heimurinn á hlutdeild í þessari byggingu. Ég vil meina að fólk elski Notre-Dame, bæði ungir og aldnir,“ segir Kristín og minnist einnig á fjölmargar persónur sem tengjast byggingunni órjúfanlegum böndum eins og hringjarann í Notre-Dame og Esmeröldu.

Sjálf ber hún miklar og sterkar tilfinningar til byggingarinnar. „Ég fæ alltaf einhvern sting þegar ég sé Notre-Dame. Sama gamla Parísarstinginn. Þessi spennutilfinning fyrir borginni að vera ástfangin,“ segir hún.