Það sker sig úr í fréttum af finnsku kosningunum að enginn flokkur sker sig úr

Þingkosningar fóru fram í Finnlandi um síðustu helgi. Ekki verður sagt að finnskar kosningar sæti oftast miklum tíðindum. Sumir fréttaskýrendur sögðu í aðdraganda kjördags nú að finnskar kosningar væru yfirleitt ekki mjög pólitískar! Það fer kannski ekki illa á því. Finnar eru í Evrópusambandinu og allar meiriháttar ákvarðanir sem þá varða eru teknar af búrókrötum í Brussel sem fáir kannast við að hafa heyrt nefnda.

Stórfréttastofur sem fleiri ríkisfjölmiðlar en sá íslenski treysta eins og nýju neti, svo sem bæði CNN og Guardian, tilkynntu að Sósíaldemókratar hefðu farið með sigur af hólmi í kosningunum. Það má með lagni til sanns vegar færa. Kratar unnu á sem nam 1,2% frá síðustu kosningum, sem hefði, ættu aðrir flokkar í hlut, sjálfsagt verið talið innan skekkjumarka. Og því má einnig halda til haga að Kratar eru eftir þessar kosningar stærsti flokkurinn með 40 þingmenn. Flokkur Finna er á sama mælikvarða næststærsti flokkur landsins því hann hlaut 39 þingmenn. Einhvern tíma hefðu það þótt tíðindi líka.

Einn helsti valdaflokkur landsins um langt skeið, Þjóðfylkingin (mið-hægriflokkur), fékk 38 þingmenn kjörna.

Þrátt fyrir hinn rómaða sigur Krata upp á 1,2% aukningu frá síðustu kosningum gætti langmestrar sveiflu í flokki fráfarandi forsætisráðherra, formanns Miðflokksins. Sá flokkur var með 49 þingmenn á bak við sig en tapaði 18 þeirra í þessum kosningum. Hann fékk 13,8% fylgi en hafði haft 21,1%. Til samanburðar má geta þess að útnefndur sigurvegari fjölmiðlanna var með 17,7% fylgi og sá næststærsti, Flokkur Finna, með 17,5% fylgi.

Fjölmiðlar spá því nú og sennilega réttilega að leiðtogi Krata muni nú mynda stjórn samkvæmt finnskri venju um að leiðtogi flokks með flesta þingmenn á bak við sig skuli fá embætti forsætisráðherra. En þar sem aðeins munaði 7.000 atkvæðum á stærstu flokkunum tveimur og 0,2 prósentustigum hafa ýmsir spurt sig hvort þessi finnska venja hefði haldið ef Flokkur Finna hefði marið sigur með þessum sama mun.

Og hefði ESB leyft það?

Um það má efast.