[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Blakkonurnar Elísabet Einarsdóttir og Berglind Gígja Jónsdóttir hafa ákveðið að taka upp þráðinn í alþjóðlegri keppni í strandblaki á nýjan leik eftir fjögurra ára hlé.

*Blakkonurnar Elísabet Einarsdóttir og Berglind Gígja Jónsdóttir hafa ákveðið að taka upp þráðinn í alþjóðlegri keppni í strandblaki á nýjan leik eftir fjögurra ára hlé. Þær slógu í gegn á Smáþjóðaleikunum í Reykjavík fyrir fjórum árum þegar þær unnu til verðlauna í greininni fyrstar Íslendinga. Þær eru byrjaðar að æfa á fullu og taka þátt í fyrsta móti sumarsins á Krít dagana 10. til 18. maí.

*Handknattleiksþjálfarinn Hilmar Guðlaugsson var um helgina kjörinn þjálfari ársins í vesturhluta Noregs á uppskeruhátíð sem haldin var í Björgvin. Hilmar, sem tók við þjálfun kvennaliðs Førde í sumar, þótti vinna afbragðsstarf hjá liðinu sem hafnaði í 7. sæti í næstefstu deild sem er besti árangur í sögu liðsins. Hilmar var með frekar fámennan og ungan hóp leikmanna auk þess sem nokkuð var um meiðsli með sem settu talsvert strik í reikninginn.

* Birkir Már Sævarsson , landsliðsmaður í knattspyrnu, verður í nýju hlutverki í sumar, ásamt því að leika með Íslandsmeisturum Vals. Hann var í gærkvöld ráðinn þjálfari 3. deildar liðsins KH, Knattspyrnufélags Hlíðarenda, ásamt Hallgrími Daníelssyni en þeir taka við af Arnari Steini Einarssyni sem hefur stýrt liðinu síðustu ár og fór með það upp í 3. deildina árið 2017.