Í síðustu viku bárust enn á ný fréttir af vandræðagangi með Brexit þegar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu var frestað fram á haust með tilheyrandi óvissu. Pólitíkin sem leiddi til þessara vandræða var pólitík sundrungar og hræðsluáróðurs.

Í síðustu viku bárust enn á ný fréttir af vandræðagangi með Brexit þegar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu var frestað fram á haust með tilheyrandi óvissu. Pólitíkin sem leiddi til þessara vandræða var pólitík sundrungar og hræðsluáróðurs. Samkvæmt heimildum innan Íhaldsflokksins var tilgangur þeirra sem leiddu Bretland í þá vegferð að ganga úr Evrópusambandinu ekki útgangan sjálf, heldur var málið tilkomið vegna innanhúss-valdabaráttu flokksins. Svipaðar sögur hafa komið fram vegna sigurs Trump í Bandaríkjunum. Það sem Trump og leiðtogar Íhaldsflokksins í Bretlandi áttu sameiginlegt var eðli pólitíkurinnar sem var stunduð. Unnið var með efa fólks og ótta, með áróðri sem síðar reyndist lygi.

Pólitík sundrungar virkar best þegar fólki reynist erfitt að meta sannleiksgildi þeirra fullyrðinga sem settar eru fram. Nærtækt dæmi um slíka pólitíska sundrung er nýleg umræða á vettvangi íslenskra stjórnmála um EES-samninginn og orkupakkana. Þó svo við eigum alltaf að skoða kosti og galla, þá ættum við líka að læra af Brexit-ævintýrinu. Ef við segjum upp EES-samningnum og orkupökkunum, hvað verður þá? Það er staðan sem Bretar eru í núna, tveimur árum eftir að þeir ákváðu að segja bless við ESB hafa Bretar enn ekki hugmynd um hvernig Brexit endar.

Við myndum þurfa að semja um nýjan fríverslunarsamning við Evrópu. Jafnframt myndum við missa aðgang að öllum viðskiptasamningum okkar í gegnum EFTA. Myndum við enda með betri samninga? Myndum við ganga inn í viðskiptasamning til vesturs? Það eru ýmsir möguleikar í stöðunni en gerum ekki sömu mistök og Bretar. Látum ekki sundrungarpólitík ráða för heldur skoðum stöðu okkar með yfirveguðum hætti. Lítum svo á alla kosti og galla því það er eina raunhæfa leiðin til að taka upplýsta ákvörðun.

En þetta er hægara sagt en gert. Ástæða þess að sundrungarpólitík virkar er hversu auðvelt er að spila á ótta fólks. Sérstaklega þegar traust á stjórnmálum er jafn lítið og nú. Lausnin við því er gagnsæi og frjáls aðgangur að upplýsingum. Að viðurkenna vandamálin og vinna þrotlaust að því að upplýsa hvað er satt og rétt. Þannig þurfum við ekki að treysta því sem stjórnmálamenn segja og getum sjálf fullvissað okkur um staðreyndir mála. Það vill sundrungarpólitíkin hins vegar ekki. Hún kvartar yfir spurningum. Hún kvartar yfir fjölmiðlum. Hún kvartar undan umfjöllun og ræðir ekki hvað er satt og rétt. Sundrungarpólitíkin kastar bara fram hálfsannleik og mistúlkunum sem rýra traust og ýfa upp það óvissuástand sem sundrungin þrífst í.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í lagið „113 vælubíllinn“, sem mér finnst mjög viðeigandi við þetta tilefni:

Líkt á hinu háa Alþingi

þau væla yfir samningi

og áður en ég æli

hættið þessu væli!

- Pollapönk

Höfundur er þingmaður Pírata. bjornlevi@althingi.is