Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Lýsis, ávarpaði starfsmenn og gesti.
Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Lýsis, ávarpaði starfsmenn og gesti. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hausaþurrkunarverksmiðja Lýsis var opnuð á föstudaginn með hátíð í nýju húsnæði sem byggt var utan um starfsemina í grennd við Þorlákshöfn. Ljósmyndari Morgunblaðsins var á staðnum og myndaði það sem fram fór.

Hausaþurrkunarverksmiðja Lýsis var opnuð á föstudaginn með hátíð í nýju húsnæði sem byggt var utan um starfsemina í grennd við Þorlákshöfn. Ljósmyndari Morgunblaðsins var á staðnum og myndaði það sem fram fór.

Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis, sagði í samtali við Morgunblaðið við þetta tilefni að að nýja verksmiðjan myndi leysa þá gömlu af hólmi, sem staðsett hefur verið innanbæjar í Þorlákshöfn.

„Það var orðið tímabært að endurnýja húsakostinn og um leið bæta staðsetninguna,“ sagði Katrín og benti á að nýja verksmiðjan, nokkra kílómetra vestan við byggðina, ætti að geta verið í meiri sátt við samfélagið sökum fjarlægðar frá lyktinni sem af starfseminni stafar. Enn fremur sé hún til marks um grunnhugsun Lýsis hf., þ.e. fullnýtingu afurða og virðingu fyrir náttúrunni.

Húsið er 2.500 fermetrar að stærð og með því mun afkastagetan geta aukist um 40 til 50 prósent.

„Gott flæði er í húsinu og þurrkunin verður bæði betri og fljótlegri. Það var margt sem við gátum bætt með því að hanna hús utan um starfsemina frá grunni,“ sagði Katrín.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, sagði svæðið sérstaklega hugsað fyrir matvælaiðnað sem lykt stafar af, en Lýsi er fyrsta fyrirtækið til að reisa þar byggingu undir starfsemi sína. Engin byggð væri nálægt og ríkjandi vindátt lægi ekki yfir íbúðabyggð.

„Þetta styður við þau áform okkar sem snúa að sérhæfingu í matvælavinnslu. Við höfum landrýmið, orkuna og kalda vatnið. Þegar þetta allt kemur saman þá verður til kjörinn vettvangur til matvælaframleiðslu. Vitandi það að á næstu fjörutíu árum þarf mannkynið að framleiða jafn mikinn mat og það hefur gert síðustu átta þúsund árin, er ljóst að í framleiðslu matvæla felast sífellt stærri sóknarfæri.“

Tilkoma flutningaskipsins Mykines, sem fer vikulega frá Þorlákshöfn til Rotterdam og aftur til baka, hefur skipt bæjarfélagið töluverðu máli að sögn Elliða.

„Það sparast þarna átta til tólf klukkustundir á hvorri leið, miðað við þau skip sem koma að landi í Sundahöfn eða á Grundartanga,“ sagði hann.

„Það gerir það að verkum að verð er hagstæðara en varan er einnig ferskari þegar hún kemur á markað erlendis. Þetta hefur gjörbreytt rekstri útflutningsfyrirtækja í Ölfusi og á Suðurlandinu öllu.“