Bibi Andersson
Bibi Andersson
Sænska leikkonan Bibi Andersson lést á sunnudag, 83 ára að aldri. Andersson hóf kvikmyndaferil sinn aðeins 15 ára gömul þegar hún lék í auglýsingu sem Ingmar Bergman leikstýrði.
Sænska leikkonan Bibi Andersson lést á sunnudag, 83 ára að aldri. Andersson hóf kvikmyndaferil sinn aðeins 15 ára gömul þegar hún lék í auglýsingu sem Ingmar Bergman leikstýrði. Þau áttu eftir að vinna náið saman næstu árin, en alls lék hún í 13 kvikmyndum leikstjórans. Þeirra á meðal eru Det sjunde inseglet (1957), Smultronstället (1957) og Persona (1966). Andersson lauk leiklistarnámi frá Konunglega sænska leiklistarskólanum áður en hún réð sig til starfa hjá Dramaten, konunglega leikhúsinu. „Bibi Andersson var stórstjarna og þekktasti leikari Svíþjóðar,“ segir Jan Göransson, kynningarstjóri Svenska Filminstitutet í samtali við Göteborgs-Posten . „Bibi var stórleikari og mikill húmoristi,“ segir Christina Olofson, kvikmyndaleikstjóri og náin vinkona Andersson, við sama miðil. Andersson var eini sænski leikarinn sem unnið hefur sænsku kvikmyndaverðlaunin, Guldbaggen, fyrir leik sinn alls fjórum sinnum, seinast árið 2008. Vorið 2009 fékk hún alvarlegt slag og bjó eftir það á hjúkrunarheimili í Stokkhólmi.