Ferðir Styrkja á almannaréttinn.
Ferðir Styrkja á almannaréttinn. — Morgunblaðið/Ómar
Umhverfisráðherra hyggst ekki leggja fram frumvarp um breytingar á náttúruverndarlögum á vorþinginu. Þetta staðfestir Sigríður Víðis Jónsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra.

Umhverfisráðherra hyggst ekki leggja fram frumvarp um breytingar á náttúruverndarlögum á vorþinginu. Þetta staðfestir Sigríður Víðis Jónsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra. Frumvarpsdrög, sem lúta að almannarétti, útivist og umgengni og þeim kafla gildandi laga sem fjallar um innflutning og dreifingu á lifandi framandi lífverum, voru kynnt á samráðsgátt stjórnvalda í febrúar og mars. Fjöldi umsagna barst, einkum um almannaréttarþáttinn. „Ráðuneytið telur mikilvægt að vinna vel úr þeim ábendingum og athugasemdum sem því bárust. Ráðherra hyggst leggja frumvarpið fram á næsta löggjafarþingi,“ segir Sigríður Víðis.

Í frumvarpsdrögunum voru lagðar til tilteknar breytingar á lögunum í því skyni að styrkja almannarétt einstaklinga sem ferðast um óræktuð eignarlönd í byggð.

Lagt er til að ekki verði heimilt að meina einstaklingum að fara um slík svæði nema nauðsynlegt sé að takmarka umferð vegna nýtingar eða verndunar svæðisins. Jafnframt er lagt til að ekki verði heimilt að takmarka umferð um slík svæði með gjaldtöku fyrir aðgang. Aftur á móti eiga landeigendur að hafa meiri rétt en áður til að ákveða hvort land þeirra í byggð sé nýtt undir endurteknar skipulegar hópferðir í atvinnuskyni. gudmundur@mbl.is