Gleðifréttir Dóttir Hrannar Sveinsdóttur fær skólavist frá 6. maí.
Gleðifréttir Dóttir Hrannar Sveinsdóttur fær skólavist frá 6. maí. — Morgunblaðið/Eggert
Erla María Markúsdóttir erla@mbl.is „Þegar ég skrifaði þetta bréf leit út fyrir að hún fengi enga kennslu og yrði hvergi í skóla, staðan var rosalega óljós.

Erla María Markúsdóttir

erla@mbl.is

„Þegar ég skrifaði þetta bréf leit út fyrir að hún fengi enga kennslu og yrði hvergi í skóla, staðan var rosalega óljós. Um leið og bréfið birtist heyrði ég frá borginni,“ segir Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíós Paradísar, í samtali við mbl.is.

Hrönn skrifaði Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra opið bréf sem birtist í Fréttablaðinu á föstudag þar sem hún lýsir veikindum ellefu ára dóttur sinnar, sem er með einhverfugreiningu, og glímu fjölskyldunnar við að fá þá þjónustu og aðstoð sem hún þarfnast en stúlkan gengur ekki lengur í skóla.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, og Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, settu sig í samband við Hrönn og fjölskyldu á föstudag. „Þeim fannst þetta ótækt og að það gæti ekki staðist lög að barn væri látið bíða heima svo að þau fóru á fullt að finna úrræði,“ segir Hrönn.

Borgaryfirvöld ræddu við skólastjórnendur í Vesturbæjarskóla, þar sem dóttir Hrannar hefur stundað nám, og farteymi borgarinnar, sem sjá um úrræði fyrir nemendur með alvarlegan fjölþættan vanda í grunnskólum. Niðurstaðan varð sú að veita stúlkunni skólavist í Hamraskóla frá og með 6. maí. Í skólanum er starfrækt sérdeild fyrir einhverfa sem ætluð er börnum með einhverfugreiningu.

Hrönn segir það vissan létti að lausn sé í sjónmáli, það eigi hins vegar eftir að skýrast betur hvað felist í skólavistinni og hvort hún henti dóttur Hrannar. „Auðvitað er það léttir að hugsa með sér: Ókei, þá erum við ekki utanveltu utan skóla til sumarfrís. Mér finnst skipta svo miklu máli að hún sé í daglegu starfi.“

Dóttir Hrannar er einnig á biðlista í Brúarskóla, sérskóla sem er rekinn af borginni fyrir nemendur í 5.-10. bekk sem eiga við alvarlegan geðrænan og tilfinningalegan vanda að etja. „En mér er sagt að það sé langsótt og muni ekki gerast á næstunni.“

Frá því að Hrönn birti bréfið hefur hún fengið mikil viðbrögð frá foreldrum sem eru í svipaðri stöðu. „Það er fullt af fólki sem hefur neyðst til að vera með börnin sín utan skóla því þau passa hvergi inn,“ segir hún.

Lengri útgáfa af viðtalinu við Hrönn er á mbl.is.