Fótbolti á Heimavelli.
Fótbolti á Heimavelli. — Ljósmynd/NRK
Heimavöllur er norsk þáttaröð sem RÚV sýndi sumarið 2018. Aðalpersóna þáttanna er Helena Mikkelsen, knattspyrnuþjálfari sem tekur fyrst kvenna að sér að þjálfa meistaraflokk karla í norsku úrvalsdeildinni.

Heimavöllur er norsk þáttaröð sem RÚV sýndi sumarið 2018. Aðalpersóna þáttanna er Helena Mikkelsen, knattspyrnuþjálfari sem tekur fyrst kvenna að sér að þjálfa meistaraflokk karla í norsku úrvalsdeildinni. Það er ekki þörf á því að vera forfallinn knattspyrnunnandi til þess að láta sér líka vel við þættina. Norðmenn eru einkar lagnir í sjónvarpsþáttagerð að taka á málum hins daglega lífs. Í fyrstu þáttaröðinni var m.a. tekið á kynjamismunun, kynferðislegri áreitni, andlegum veikindum og samskiptavandamálum á sama tíma og fylgst var með gengi fótboltafélagsins Varg IL í Ulsteinvik á vesturströnd Noregs.

Það var mér mikil gleði þegar ég vafraði um á apple tv og fann á NRK nýja þáttaröð af Heimebane eins og þættirnir heita á norsku. Þegar ég byrjaði að horfa var búið að sýna fimm þætti af átta og biðin eftir síðustu þremur þáttunum var spennandi. Líkt og í fyrri þáttum er tekist á við daglegt líf utan vallar sem innan og tæpt á hinum ýmsum álitamálum. Karakterarnir í Heimavelli eru orðnir að hálfgerðum heimilisvinum og gaman að fylgjast með þeim þroskast á lífsins vegi. Ég sé ekki eftir því að hafa þjófstartað Heimavelli. Þið hin eigið von á góðu.

Guðrún Erlingsdóttir