Hópferðabifreið sem ekið var aftan á fólksbifreið á Suðurlandsvegi vestan Hunkubakka í desember 2017 með þeim afleiðingum að tveir farþegar létu lífið og nokkrir slösuðust alvarlega var ekið of hratt og hemlageta hennar var of lítil.

Hópferðabifreið sem ekið var aftan á fólksbifreið á Suðurlandsvegi vestan Hunkubakka í desember 2017 með þeim afleiðingum að tveir farþegar létu lífið og nokkrir slösuðust alvarlega var ekið of hratt og hemlageta hennar var of lítil. Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa sem birt var í gær.

Í skýrslunni segir að ökumaður hópferðabifreiðarinnar hafi brugðist of seint við eða ekið of nálægt fólksbifreiðinni miðað við aðstæður. Sömuleiðis hafi ökumaðurinn og nokkrir farþegar, þar á meðal þeir sem létust, ekki verið með öryggisbelti spennt og ökumaðurinn mögulega verið þreyttur. 44 ferðamenn voru í bifreiðinni auk leiðsögumanns og ökumanns.

Varðandi ástand hópferðabifreiðarinnar hafi við rannsókn komið í ljós að ástandi hemlakerfis hennar væri ábótavant. Hemlar í hægra framhjóli hafi virkað en engin virkni hafi verið á hemlum í vinstra framhjóli. „Vökvahemlakerfi var í framhjólum og var leki í kerfinu vinstra megin, þannig að enginn vökvi var í dælunni og stimplar í hemladælu fastir. Lekinn var úr hemlaslöngu sem liggur frá forðabúri að höfuðdælu. Gaumljós í mælaborði sem á að kvikna þegar vökvamagn fer niður fyrir lágmark var bilað.“