Rekstur Kvika mun skila góðu uppgjöri.
Rekstur Kvika mun skila góðu uppgjöri. — Morgunblaðið/Hari
Kvika banki hækkaði um 8,74% í Kauphöll Íslands í gær í kjölfar þess að hafa í gærmorgun sent frá sér jákvæða afkomuviðvörun. Þar kom fram að frumdrög að uppgjöri samstæðu Kviku banka vegna fyrsta ársfjórðungs 2019 lægju nú fyrir.

Kvika banki hækkaði um 8,74% í Kauphöll Íslands í gær í kjölfar þess að hafa í gærmorgun sent frá sér jákvæða afkomuviðvörun. Þar kom fram að frumdrög að uppgjöri samstæðu Kviku banka vegna fyrsta ársfjórðungs 2019 lægju nú fyrir. Samkvæmt þeim drögum lítur út fyrir að hagnaður bankans á fjórðungnum verði 830 til 880 milljónir króna fyrir skatta. Áætlanir fyrirtækisins fyrir allt árið 2019 höfðu gert ráð fyrir að hagnaður fyrir skatta myndi nema 1.990 milljónum króna án áhrifa af GAMMA Capital Management hf. sem kom inn í samstæðu bankans 1. mars síðastliðinn. Kvika birti ekki ársfjórðungsuppgjör á síðasta ári en samkvæmt hálfsársuppgjöri bankans nam hagnaður fyrir skatta 1.056 milljónum.

Samkvæmt tilkynningu bankans má rekja góða afkomu hans að þessu sinni til þess að þóknunartekjur voru umfram áætlun, einkum vegna markaðsaðstæðna sem reyndust hagfelldar á fjórðungnum.

Bankinn mun birta uppfærða afkomuspá vegna ársins 2019 um leið og hún liggur fyrir.

Við lokun markaða í gær var markaðsvirði Kviku orðið 22,3 milljarðar og hefur aldrei verið hærra. Markaðsvirði bankans hefur aukist um 10 milljarða frá því að hann var skráður á First North markaðinn í mars í fyrra. Félagið var tekið til viðskipta á aðalmarkaði 28. mars síðastliðinn.