Davíð Hjálmar í Davíðshaga fór um Krossanesborgir á laugardagsmorgun. Þar var blautt og lítið líf ennþá. Hann sá þó eitt útsprungið blóm á vetrarblómi. En mávarnir voru farnir að stíga í vænginn.

Davíð Hjálmar í Davíðshaga fór um Krossanesborgir á laugardagsmorgun. Þar var blautt og lítið líf ennþá. Hann sá þó eitt útsprungið blóm á vetrarblómi. En mávarnir voru farnir að stíga í vænginn.

Sefur brum á rós og reyni,

rennur vatn um laut og flag,

en svartbakur á stórum steini

stígur dans og syngur lag.

Þann sama dag barst þessi vísa Magnúsar Geirs Guðmundssonar að norðan á Boðnarmiði:

Hef að segja frekar fátt,

sem fréttnæmt telst að viti.

Í dag jú sól og sunnanátt

og sextán stiga hiti.

Hér syðra var „Óveðursnótt“. Guðmundur Arnfinnsson orti:

Hratt yfir ströndu ber stormvænginn þanda,

steypiregn fellur úr skýjanna höll.

Hamast í tryllingi hafrót við sanda,

í hamrinum byltir sér andvaka tröll.

Á föstudaginn setti Sigurlín Hermannsdóttir á Leirinn: „Heiðarlegar haustlægðir“ á leið til landsins, segir RÚV. Mér þykir fullfljótt farið að hausta, ekki komnir páskar!

Kættumst öll á vorsins vegum

er vetur hvarf í skyndi.

Nú haustar fljótt með heiðarlegum

hraglanda og vindi.

Næsta dag birti Sigurlín þessi ljóðmæli:

Set ég lítið ljóð á blað,

leita vísnagæða.

Þessi staka stuðlar að

stefnufestu kvæða.

Bögu saman banga má,

Braga ljúfur óður.

Boðnarmiði bergi á,

býsn er drykkur góður.

Stuðlamálið styðjumst við,

staðföst allt til dauða.

Höktum því að horfnum sið

‘við höfuðstaf til sauða'.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is