Ferskir hausar bíða þurrkunar. Með því að tæknivæða framleiðsluna má láta sama fjölda starfsmanna afkasta töluvert meiru. Launakostnaður vegur þungt í hausaþurrkun.
Ferskir hausar bíða þurrkunar. Með því að tæknivæða framleiðsluna má láta sama fjölda starfsmanna afkasta töluvert meiru. Launakostnaður vegur þungt í hausaþurrkun. — Morgunblaðið/Jim Smart
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Verð er mun lægra en það var þegar best lét en sala á þurrkuðum fiskhausum til Nígeríu er í jafnvægi og framleiðendur hafa leitað nýrra leiða til að hagræða og auka afköst

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Framleiðendum þurrkaðra fiskafurða hér á landi virðist hafa tekist að laga sig að þeirri erfiðu stöðu sem kom upp á nígeríska markaðinum um mitt ár 2015. Í tilviki Laugafisks var brugðist við með samruna og tæknivæðingu og þannig hagrætt í rekstrinum og fyrirtækið um leið gert betur í stakk búið til að geta tekist á við það ef frekari sveiflur verða í viðskiptum við Nígeríu.

Svanhildur Guðrún Leifsdóttir er sölustjóri hjá Laugafiski, dótturfélagi Skinneyjar-Þinganess, HB Granda og Nesfisks. „Samdrátturinn var verulegur á sínum tíma og lækkaði verðið á þurrkuðum fiskhausum um 50%. Í framhaldinu var þurrkverksmiðju Laugafisks á Akranesi lokað.“

Nesfiskur og Skinney-Þinganes keyptu síðan fyrirtækið Háteigur fiskverkun árið 2017 og héldu þar áfram framleiðslu á þurrkuðum afurðum eins og áður hafði verið. Árið 2018 keypti HB Grandi sig inn í fyrirtækið og var þá ákveðið að ráðast í nauðsynlegar breytingar til að auka framleiðsluafköstin. Einnig var afráðið að nafn félagsins yrði Laugafiskur hf. – sama nafn og HB Grandi hafði notað á sína þurrkverksmiðju á Akranesi.

Flutningur framleiðslunnar út á Reykjanes þýddi að störf töpuðust á Akranesi en á móti losnuðu bæjarbúar við lyktina af framleiðslunni sem stundum hafði valdið heimamönnum ama. Átti það sama við um framleiðslu Nesfisks í Garði, og öll framleiðsla beggja fyrirtækja nú komin á sama stað, utarlega á Reykjanesi þar sem engin hætta er á að lyktmengun nái til byggða. Vinna nú um 25 manns við framleiðsluna.

Gerir störfin léttari

Að sögn Svanhildar fylgdi sameiningunni ágætis hagræði og skapaðist grundvöllur fyrir aukinni vélvæðingu. Segir hún vonir standa til að með sjálfvirknivæðingu megi bæði létta störfin og framleiða umtalsvert meira magn með sama fjölda starfsmanna.

„Fram til þessa hefur þurrkunin farið þannig fram að hausarnir koma ferskir inn í hús og er sturtað í þvottakar. Því næst er þeim raðað á séstakar grindur úr plasti og þarf starfsfólkið að stafla grindunum upp. Þá er grindunum trillað inn í þurrkklefa og tekur þar 30-40 klst. að forþurrka hausana,“ útskýrir Svanhildur. „Því næst þarf að slá hausana af grindunum ofan í stóra kassa og þá fer fram eftirþurrkun og jöfnun þar sem við stillum rakastigið af með stýrðu loftflæði og hitastigi. Loks er hausunum pakkað í 30 kg strigapoka og saumað fyrir með gamla laginu.“

Það er ekki bara út af hefðinni að framleiðendur þurrkaðra fiskhausa halda tryggð við strigapokana. „Kaupendur vilja getað opnað pokann, athugað gæði vörunnar og svo lokað honum aftur – sem þeir geta gert þegar pokanum er lokað með saumi. Þá andar striginn og geymir vöruna því betur en t.d. plast- eða pappírskassi sem myndi halda hvers kyns raka inni í fiskinum,“ segir Svanhildur en strigapokunum er staflað beint í gám sem síðan er sendur rakleiðis til Nígeríu.

Nígería háð olíuverði

Eftir tæknivæðingu þurrkverksmiðjunnar úti á Reykjanesi verður framleiðsluferlið orðið að stórum hluta sjálfvirkt. Ásamt endurnýjun á þurrkklefum verða settir upp færibandaklefar. Segir Svanhildur stefnt að því að ljúka stækkun vinnsluhúsnæðisins og uppsetningu véla fyrir sumarlok. Um töluverða fjárfestingu er að ræða en aukin afköst ættu að duga til að greiða upp þann kostnað á komandi árum.

Svanhildur segir ekki hægt að reikna með að markaðurinn fyrir þurrkaða fiskhausa í Nígeríu nái sér fyllilega á strik en framleiðendur vænta þess að verð vörunnar haldist á svipuðu róli og nú. Eins og lesendur ættu að muna var rót vandans sú að hagkerfi Nígeríu er mjög háð olíuframleiðslu og veiklaðist því töluvert þegar olíuverð lækkaði skarplega 2014 og 2015. „Fyrir vikið varð mjög dýrt fyrir Nígeríubúa að kaupa erlendan gjaldeyri og voru sett höft á gjaldeyriskaup vegna innflutnings á þurrkuðum fiskhausum,“ útskýrir Svanhildur.

Til að flækja málið enn frekar þá skiptast íbúar Nígeríu nánast til helminga í kristna og múslima, og er það kristna fólkið sem neytir þurrkaðra fiskhausa á meðan múslimarnir gera mun minna af því. Muhammadu Buhari, forseti landsins frá árinu 2015, er múslimi og þykir því seint líklegur til að hafa mikinn áhuga á að liðka fyrir viðskiptum með þurrkaðan fisk. „Verðið er fjarri því eins gott og það var árið 2015 en er þó orðið viðunandi og eftirspurnin bæði jöfn og stöðug,“ segir Svanhildur en það eru aðallega íslenskir og norskir framleiðendur sem selja Nígeríumönnum þurrkaða fiskhausa. „Það er enginn bilbugur á okkur, en um leið verðum við að hafa það hugfast að aðstæður í Nígeríu geta breyst hratt og þá ýmist hjálpað eða skemmt fyrir okkar viðskiptum þar í landi. Við þurfum því að fylgjast vel með frá degi til dags, en almennt er hljóðið gott í viðskiptavinum okkar úti og á meðan gjaldeyrisforði Nígeríu skreppur ekki saman þá ætti salan að ganga vel.“

Bragðbætir og nærir

Talið er að það hafi verið evrópskir kristniboðar sem fyrst kynntu heimamönnum í Nígeríu þurrkaðan fisk. Svanhildur segir þurrkaða fiskhausa einkum gegna hlutverki krydds í nígerískri matargerðarlist: „Er hausinn þá mulinn fínt og t.d. bætt út í kássur til að gefa ákveðið bragð. Um leið er hráefnið góður prótíngjafi og auðugt að næringarefnum sem fólk í þessum heimshluta fær ekki endilega úr öðrum matvælum,“ segir Svanhildur.

Gegna þurrkaðir fiskhausar meira að segja samfélagslegu hlutverki. „Hvert þorp hefur sína siði, en ég hef heyrt að á einum stað sé það venjan að þegar kona eignast barn þá þurfi maðurinn hennar að sjá henni fyrir einum þurrkuðum fiskhaus á dag. Eru hausarnir þá hengdir upp fyrir utan húsið og einn haus skorinn af dag hvern, svo að þorspsbúar geti fylgst með því að móðirin fái örugglega góða næringu á meðan hún jafnar sig eftir barnsburðinn.“