Friðrik Árni Friðriksson Hirst
Friðrik Árni Friðriksson Hirst
Eftir Friðrik Árna Friðriksson Hirst: "SPRON-málið veitir vísbendingu um að dómstólar gæti varfærni við að fella viðskiptalegar ákvarðanir undir umboðssvik þótt áhættusamar séu."

Tilgangur þessarar greinar er að varpa ljósi á hvernig lánveitingar fjármálafyrirtækja horfa við umboðssvikaákvæði 249. gr. almennra hegningarlaga. Borin verða saman tvö mál þar sem stjórnendur fjármálafyrirtækja voru ákærðir fyrir umboðssvik fyrir þátt sinn í tilteknum lánveitingum viðkomandi fyrirtækja. Annað málið er svonefnt Exeter-mál en þar voru ákærðu sakfelldir fyrir umboðssvik vegna lánveitinga Byrs sparisjóðs til að fjármagna kaup á stofnfjárbréfum í sparisjóðnum (dómar Hæstaréttar frá 7. júní 2012 í máli nr. 442/2011 og frá 31. október 2013 í máli nr. 135/2013). Hitt málið er svokallað SPRON-mál, þar sem sýknað var af umboðssvikaákæru vegna lánveitingar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) til Exista hf. (dómur Hæstaréttar frá 19. janúar 2017 í máli nr. 525/2015).

Í grein höfundar sem birtist í Morgunblaðinu 1. apríl sl. var fjallað um skilyrði umboðssvika með áherslu á skilyrðið um auðgunarásetning. Í greininni var komist að þeirri niðurstöðu að tiltekin gagnrýni á dómaframkvæmd Hæstaréttar í málum tengdum efnahagshruninu ætti ekki rétt á sér. Þannig hafi lengi verið lagt til grundvallar í dómaframkvæmd að nægilegt sé til sakfellingar fyrir umboðssvik að hinn brotlegi misnoti aðstöðu sína, t.d. sem starfsmaður eða stjórnandi fyrirtækis, þannig að veruleg fjártjónshætta hljótist af, að uppfylltum öðrum skilyrðum brotsins. Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari ritaði einnig grein í Morgunblaðið um sama viðfangsefni 3. apríl sl., þar sem öndverðum sjónarmiðum var haldið fram meðal annars um skýringu á skilyrðinu um auðgunarásetning. Í grein hans var jafnframt vitnað til umfjöllunar dr. Erik Werlauff hæstaréttarlögmanns og prófessors við Háskólann í Álaborg um hvernig skilyrðið um auðgunarásetning er skýrt í tengslum við umboðssvik í dönskum rétti.

Exeter-málið

Exeter-málið snerist um tvær lánveitingar Byrs sparisjóðs til Tæknisetursins Arkea ehf. (síðar Exeter Holdings ehf.) sem áttu sér stað 13. október 2008 og 29. desember 2008 og námu samanlagt rúmum einum milljarði króna. Tilgangur lánveitinganna var að fjármagna kaup Exeter Holdings ehf. á stofnfjárbréfum í sparisjóðnum. Seljendur bréfanna voru MP banki hf., formaður stjórnar Byrs sparisjóðs, sem og tilteknir aðrir stjórnarmenn og lykilstarfsmenn sparisjóðsins og aðilar þeim tengdir. Lán sparisjóðsins til Exeter Holdings ehf. voru veitt með veði í stofnfjárbréfunum sjálfum en aðrar tryggingar voru ekki settar fyrir lánunum. Eigið fé lántakans Exeter Holdings ehf. var neikvætt þegar lánin voru veitt. Í apríl 2010 var sparisjóðurinn tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu og í maí 2011 var bú Exeter Holdings ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Engar eignir fundust í búi Exeter Holdings ehf. fyrir utan umrædd stofnfjárbréf í sparisjóðnum sem þá voru orðin verðlaus. Ekkert fékkst greitt upp í lýstar kröfur í bú Exeter Holdings ehf., þar á meðal kröfur sparisjóðsins vegna umræddra lána til félagsins til kaupa þess á stofnfjárbréfum af fyrrgreindum aðilum.

Í Exeter-málinu voru formaður stjórnar Byrs sparisjóðs (A) og sparisjóðsstjóri (B) sakfelldir í Hæstarétti fyrir umboðssvik með því að hafa staðið að fyrrgreindum lánveitingum sparisjóðsins til Exeter Holdings ehf. Í forsendum Hæstaréttar var vísað til þess að á þessum tíma hafi verið veruleg lausafjárþurrð hjá fjármálafyrirtækjum, hlutafjármarkaður í mikilli óvissu og þrír stærstu viðskiptabankar landsins fallið um líkt leyti. Mat á verðgildi stofnfjárbréfanna sem trygginga fyrir lánunum hafi verið óviðunandi og í miklu ósamræmi við reglur sparisjóðsins. Auk þess hafi ákærðu A og B verið vanhæfir til að taka ákvörðun um fyrri lánveitinguna, en síðari lánveitingin hafði verið samþykkt af stjórn sparisjóðsins. Með aðgerðum sínum voru ákærðu A og B taldir hafa komið málum þannig fyrir að áhættu á tjóni vegna stofnfjárbréfanna var velt yfir á sparisjóðinn. Á sama tíma hafi seljendur stofnfjárbréfanna losnað undan skuldbindingum gagnvart MP banka hf., sem upphaflega hafði lánað þeim til kaupa á umræddum stofnfjárbréfum, og MP banki hf. fengið þau lán endurgreidd. Með háttsemi sinni voru ákærðu A og B taldir hafa misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum í skilningi 249. gr. hegningarlaga. Hafi sparisjóðurinn orðið bundinn við umrædda gerninga og þeir skapað verulega fjártjónshættu fyrir sjóðinn, en sú hætta raungerðist síðan þar sem lánin fengust ekki endurgreidd. Ákærðu A og B voru dæmdir til að sæta fangelsi í fjögur og hálft ár. Við ákvörðun refsingar leit Hæstiréttur til þess að A losnaði undan persónulegum ábyrgðum vegna brotanna sem voru veruleg að umfangi og að þau voru framin í skjóli stöðuumboðs B.

Forstjóri MP banka hf. (C) var sakfelldur fyrir hlutdeild í umboðssvikum ákærðu A og B fyrir þátt sinn í fyrri lánveitingunni í október 2008. Hæstiréttur taldi sannað að ákærða C hafi ekki getað dulist að lánveitingin hafi verið ólögmæt og til þess fallin að valda Byr sparisjóði verulegri fjártjónshættu, þó svo að ákærði C hafi ekki vitað hvernig staðið var að lánveitingunni af hálfu sparisjóðsins. Var ákærði C dæmdur til að sæta fangelsi í eitt ár.

SPRON-málið

Hitt dómsmálið sem hér verður gert að umtalsefni er svonefnt SPRON-mál. Þar voru þáverandi framkvæmdastjóri og stjórn SPRON ákærð fyrir umboðssvik vegna tveggja milljarða króna lánveitingar sparisjóðsins til Exista hf. Lánið var veitt 30. september 2008 eða nokkrum dögum áður en íslenska fjármálakerfið riðaði til falls. Um var að ræða svokallað peningamarkaðslán sem stjórn sparisjóðsins tók ákvörðun um að veita Exista hf. til eins mánaðar og án trygginga. Lánið fékkst ekki endurgreitt. Í málinu voru ákærðu nánar tiltekið borin sökum um að hafa misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefnt fé hans í verulega hættu, með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga. Ákærðu voru sýknuð bæði í dómum héraðsdóms og Hæstaréttar. Sú niðurstaða var meðal annars byggð á því að samkvæmt árshlutauppgjöri hafi eiginfjár- og lausafjárstaða Exista hf. verið afar sterk þremur mánuðum áður en lánið var veitt og endurfjármögnun félagsins tryggð fram í desember 2009. Voru hlutaðeigandi stjórnarmenn sparisjóðsins taldir hafa mátt treysta því að uppgjörið gæfi rétta mynd af stöðu félagsins. Þetta varð niðurstaðan enda þótt umrætt lán hefði verið veitt án trygginga og á viðsjárverðum tímum í íslensku efnahagslífi en ákærðu voru ekki talin hafa mátt sjá fyrir það hrun á fjármálamörkuðum sem varð stuttu síðar.

Samantekt

Eins og SPRON-málið ber með sér er ekki sjálfgefið að viðskiptalegar ákvarðanir verði taldar umboðssvik enda þótt þær skapi áhættu og leiði jafnvel til tjóns þegar upp er staðið. Til að ákvörðun verði virt sem umboðssvik þarf meira að koma til, þar með talið að viðkomandi hafi misnotað aðstöðu sína. Því skilyrði töldu dómstólar fullnægt í Exeter-málinu en ekki í SPRON-málinu. Að mati greinarhöfundar veitir SPRON-málið jafnframt vísbendingu um að íslenskir dómstólar gæti varfærni við að fella viðskiptalegar ákvarðanir undir umboðssvik þótt áhættusamar séu. Í tilviki lánveitinga skiptir þá ekki síst máli hvort þær hafi farið fram í samræmi við lánareglur og mat á áhættu verið forsvaranlegt.

Höfundur er doktorsnemi í refsirétti við Lagadeild Háskóla Íslands.