Eldur kom upp í fiskibátnum Æsi síðdegis í gær. Þrír voru um borð í bátnum þegar eldurinn kom upp, en hann var þá staddur vestur af Flatey á Breiðafirði. TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, var þegar kölluð út og flugvél Gæslunnar, TF-SIF, sömuleiðis.

Eldur kom upp í fiskibátnum Æsi síðdegis í gær. Þrír voru um borð í bátnum þegar eldurinn kom upp, en hann var þá staddur vestur af Flatey á Breiðafirði. TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, var þegar kölluð út og flugvél Gæslunnar, TF-SIF, sömuleiðis. Einnig var leitað liðsinnis varðskipsins Týs og björgunarsveita Landsbjargar á Snæfellsnesi, að því er fram kom í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Þegar flugvélin kom að bátnum klukkan 18:09 voru mennirnir þrír komnir í flotgalla og voru þeir óhultir. Enginn reykur var þá sjáanlegur í bátnum, en hiti engu að síður greinanlegur með hitamyndavél flugvélarinnar. Áhöfnin á Hafey tók Æsi í tog á áttunda tímanum í gærkvöld og hugðist draga hann til Brjánslækjar.

Björgunarskipinu Björgu frá Rifi, varðskipinu Tý, flugvél Landhelgisgæslunnar og þyrlunni Líf var hins vegar snúið við.