Plastmengun Örplast hefur fundist bæði á fjöllum og í sjávardjúpum.
Plastmengun Örplast hefur fundist bæði á fjöllum og í sjávardjúpum. — AFP
Afskekkt fjallasvæði, sem talið var laust við plastmengun, er í raun þakið örplastögnum sem hafa borist þangað með vindum. Er mengunin svipuð og í stórborgum á borð við París, að sögn vísindamanna.

Afskekkt fjallasvæði, sem talið var laust við plastmengun, er í raun þakið örplastögnum sem hafa borist þangað með vindum. Er mengunin svipuð og í stórborgum á borð við París, að sögn vísindamanna.

Í grein, sem birtist í gær í vísindatímaritinu Nature Geoscience , kemur fram að á fimm mánaða tímabili á árunum 2017 og 2018 féllu að jafnaði 365 örplastagnir á hvern fermetra á óbyggðu svæði í Pýreneafjöllum í um 1.500 metra hæð á landamærum Frakklands og Spánar.

„Það er stórfurðulegt og uggvænlegt að svo margar agnir skyldu finnast á þessu svæði,“ sagði Steve Allen, doktorsnemi í Strathclyde háskóla í Skotlandi og aðalhöfundur greinarinnar.

Deonie Allen, vísindamaður hjá EcoLab í Toulouse og einn af meðhöfundum greinarinnar, sagði að merkilegasta niðurstaða rannsóknarinnar væri að örplast berist milli staða í andrúmsloftinu og safnist saman á afskekktum stöðum langt frá stórborgum.

Rannsóknin beindist að örplastögnum sem eru 10-150 míkrómetrar í þvermál. Mannshár er til samanburðar um 70 míkrómetrar í þvermál. Vísindamennirnir sögðu að það hefði komið mjög á óvart að magn plastagnanna hefði verið svipað og í stórborgum á borð við París og kínversku iðnaðarborginni Dongguan.

Vaxandi áhyggjur

Sívaxandi áhyggjur eru af plastmengun en talið er að um 12 milljónir tonna af plasti lendi í úthöfum árlega og milljónir tonna til viðbótar enda í ám og landfyllingum. Niðurstöður rannsóknar, sem birtar voru fyrr á þessu ári, sýndu að örplast fannst í meltingarfærum botnsjávardýra sem lifa á yfir 10 km dýpi.