Súdan Mótmælendur flykktust að höfuðstöðvum hersins í höfuðborginni Khartoum og komu í veg fyrir að setuverkfall þar yrði leyst upp.
Súdan Mótmælendur flykktust að höfuðstöðvum hersins í höfuðborginni Khartoum og komu í veg fyrir að setuverkfall þar yrði leyst upp. — AFP
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Skipuleggjendur fjöldamótmælanna í Súdan kröfðust þess í gær að herforingjaráðið, sem steypti Omar al-Bashir af stóli í síðustu viku, segði af sér og að í stað þess kæmi borgaralegt ráð, þar sem fulltrúar hersins sætu við borðið. Þá var þess einnig krafist að ríkissaksóknari og aðrir yfirmenn dómsmála í landinu færu frá, þar sem þeir hefðu verið skipaðir af Bashir.

Herinn reyndi í gær að dreifa mótmælendum sem hafa tekið sér stöðu við höfuðstöðvar hans í höfuðborginni Khartoum undanfarna tíu daga. Hvöttu skipuleggjendur mótmælanna fólk til þess að fjölmenna að bækistöðvum hersins og „verja byltinguna“ en herforingjaráðið hefur lagst gegn því að ofbeldi verði beitt gegn mótmælendum.

Irfan Siddiq, sendiherra Bretlands í Súdan, fundaði jafnframt með Mohammad Hamdan Daglo, sem er hægri hönd Abdel Fattah al-Burhan, leiðtoga herforingjaráðsins. Sagði Siddiq að helsta ósk ríkisstjórnar sinnar væri að engin tilraun yrði gerð til að leysa setuverkfall mótmælenda við herbúðirnar með ofbeldi.

Þá sögðust Bretar styðja kröfur um að mynduð yrði borgaraleg stjórn sem fyrst, en það var í samræmi við yfirlýsingu sem sendiráð Breta, Bandaríkjamanna og Norðmanna sendu frá sér á sunnudaginn, þar sem hvatt var til viðræðna um að koma á borgaralegri stjórn að nýju.

„Frelsi, réttlæti og lýðræði“

Herforingjaráðið fundaði með fulltrúum helstu stjórnmálaflokka landsins á sunnudaginn, degi eftir að Burhan sór embættiseið sem nýr leiðtogi ráðsins. Þar lofaði hann því að markmið sitt væri að móta stofnanir ríkisins upp á nýtt og „uppræta“ stjórn og stefnumál Bashirs.

Undirhershöfðinginn Yasser al-Ata sagði á fundinum á sunnudag að markmið herforingjaráðsins væri að búa til „borgaralegt ríki sem byggir á frelsi, réttlæti og lýðræði“. Óskuðu herforingjarnir eftir því að stjórnmálaflokkarnir myndu koma sér saman um „óháðan einstakling“ til þess að gegna starfi forsætisráðherra landsins í bráðabirgðastjórn.

Framsal Bashirs talið ólíklegt

Verkalýðssamtökin SPA, sem hafa haft sig einna mest í frammi í mótmælunum, hafa krafist þess að Bashir og helstu embættismenn í leynilögreglu hans verði dregnir fyrir dómstóla til að standa skil á brotum sínum.

Heimildarmenn AFP-fréttastofunnar greindu hins vegar frá því að þó að nær öruggt væri að réttað yrði yfir Bashir í Súdan, yrði hann ekki framseldur til Alþjóðastríðsglæpadómstólsins fyrir meint brot í Darfur-héraði, þar sem nokkrir innan herforingjaráðsins væru of nátengdir herferð stjórnarinnar þar.