[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eggert Claessen er fæddur í Reykjavík 16. apríl 1959 og ólst upp í miðbæ Reykjavíkur að Fjólugötu 13 þar sem hann bjó til 24 ára aldurs, en hefur búið í Seljahverfinu eftir það.

Eggert Claessen er fæddur í Reykjavík 16. apríl 1959 og ólst upp í miðbæ Reykjavíkur að Fjólugötu 13 þar sem hann bjó til 24 ára aldurs, en hefur búið í Seljahverfinu eftir það. Grunnskólanámið var í Ísaksskóla, Miðbæjarskóla, Austurbæjarskóla og Vörðuskóla. Hann lauk verslunarprófi 1977 og stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands 1979.

Eggert stofnaði fyrsta fyrirtækið sitt ásamt viðskiptafélaga 1981. Fyrirtækin urðu fleiri og áttu það sammerkt að vera í tölvu- og upplýsingatækni. Hann tók þátt í stofnun Samtaka íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja 1992 sem seinna varð Samtök Upplýsingatæknifyrirtækja (SUT) og sat þar í stjórn, síðasta árið sem formaður þar til hann tók við nýju starfi 2008. Samhliða fyrirtækjarekstri lauk hann viðskiptafræðinámi (cand.oecon.) frá Háskóla Íslands 1984 og meistaragráðu frá sama skóla 2001 þar sem hluti námsins var í Viðskiptaháskólanum í Árósum. Um það leyti sem hann lauk meistaranáminu tók hann að sér stundakennslu í Háskóla Íslands þar sem hann kenndi í tæp 10 ár, fyrst alþjóðaviðskipti og síðar þekkingarstjórnun.

Eggert seldi hlut sinn í fyrirtækjunum sem hann hafði rekið og hóf doktorsnám í Bretlandi 2003 við Henley Management College. Hann lauk doktorsprófi í þekkingarstjórnun 2008 og var sama ár ráðinn framkvæmdastjóri Frumtaks, fjárfestingafélags sem fjárfestir í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum sem vænleg eru til vaxtar og útrásar. Hann hefur starfað þar síðan við umsýslu sjóðanna Frumtaks slhf. og Frumtaks 2 slhf. Sem hluta af starfi sínu situr hann í stjórn margra fyrirtækja, ýmist sem almennur stjórnarmaður eða stjórnarformaður auk þess sem hann er mjög virkur í sprota- og nýsköpunarumhverfinu.

„Yngri börnin mín tvö voru mikið keppnisfólk í samkvæmisdönsum og samkvæmisdansinn var fjölskyldu-sportið okkar um árabil. Sem foreldri vann ég mikið við danskeppnir, mest sem útreikningsstjóri og tók ég sérstakt hæfnispróf hjá breska danskennarasambandinu til að fá réttindi sem slíkur. Einnig var ég oft keppnisstjóri. Ég tók virkan þátt í stofnun Dansíþróttasambands Íslands með því að sitja í svokallaðri dansnefnd sem var forveri sambandsins og síðan í fyrstu stjórn sambandsins við stofnun þess. Þegar börnin fóru að draga úr keppnisþátttöku, þá byrjuðum við hjónin að keppa í suður-amerískum dönsum og við fórum fjórum sinnum utan á heimsmeistaramót til að keppa fyrir Íslands hönd í okkar aldursflokki.

Ég er mikill áhugamaður um hreyfingu, hef stundað hlaup í mörg ár og tekið þátt í hinum ýmsu almenningshlaupum. Árið 2002 hljóp ég mitt fyrsta maraþon og hef hlaupið 21 slík, þ. á m. mörg erlendis, s.s. hið upprunalega maraþonhlaup frá borginni Maraþon í Grikklandi til Aþenu og á Kínamúrnum, auk þekktra hlaupa svo sem New York, Berlín og London og fleiri.“

Fjölskylda

Eiginkona Eggerts er Sigrún Kjartansdóttir, f. 8.7.1958, framkvæmdastjóri. Foreldrar Sigrúnar: Hjónin Kjartan Sveinn Guðjónsson, f. 2.9. 1925, d. 24.5. 2015, framkvæmdastjóri, og Lína Guðlaug Þórðardóttir, f. 27.7. 1927, kaupmaður.

Börn Eggerts og Sigrúnar eru 1) Ásdís, f. 3.6.1975, sálfræðingur í Kaupmannahöfn og á hún tvær dætur, Helene og Viktoríu, tvíbura f. 2009; 2) Anna, f. 20.12. 1985, fjölmiðlafræðingur og markþjálfi; 3) Stefán, f. 30.7. 1988, viðskiptafræðingur og margmiðlunarhönnuður. Unnusta hans er Guðbjörg Una Hallgrímsdóttir, f. 22.7. 1991, ferðamála- og viðskiptafræðingur og eiga þau dótturina Elvu Maríu, f. 2019.

Systkini Eggerts: Helga Sigríður, f. 22.8. 1940, d. 5.5. 2010, húsmóðir; Ásta Jóhanna, f. 22.2. 1945, sjúkraþjálfari, og Arent, f. 17.3 1947, lögfræðingur.

Foreldrar Eggerts voru hjónin Jean Emil Claessen, f. 11.11. 1911, d. 7.8. 1970, framkvæmdastjóri hjá O. Johnson & Kaaber, og Jóhanna Júlíana Guðbjartsdóttir Claessen, f. 26.6. 1918, d. 11.2. 1982, húsmóðir í Reykjavík.