Eldur í Notre-Dame Parísarbúar söfnuðust saman í gærkvöld og fylgdust með baráttu slökkviliðs við eld í Notre-Dame dómkirkjunni. Um tíma var óttast að kirkjan myndi brenna til grunna.
Eldur í Notre-Dame Parísarbúar söfnuðust saman í gærkvöld og fylgdust með baráttu slökkviliðs við eld í Notre-Dame dómkirkjunni. Um tíma var óttast að kirkjan myndi brenna til grunna. — AFP
Mannfjöldi fylgdist í gærkvöldi með baráttu slökkviliðsmanna við mikinn eld í Notre-Dame dómkirkjunni í París. Sumir grétu, aðrir báðust fyrir og sungu Ave Maria á latínu.

Mannfjöldi fylgdist í gærkvöldi með baráttu slökkviliðsmanna við mikinn eld í Notre-Dame dómkirkjunni í París. Sumir grétu, aðrir báðust fyrir og sungu Ave Maria á latínu.

Hæsta turnspíra kirkjunnar féll til jarðar þegar eldurinn hafði logað í rúma klukkustund og um tíma var óttast að kirkjan myndi brenna til grunna. En seint í gærkvöldi lýsti Jean-Claude Gallet, slökkviliðsstjóri Parísar, því yfir að tekist hefði að bjarga meginbyggingunni og turnunum tveimur sem einkenna hana. Um 400 slökkviliðsmenn tóku þátt í slökkvistarfinu.

Dómkirkjan, sem á íslensku hefur verið nefnd Maríukirkjan, er eitt helsta einkennistákn Parísarborgar. Hornsteinn hennar var lagður árið 1163 og byggingin tók tæpar tvær aldir.

„Við munum endurbyggja Notre-Dame saman,“ sagði Emmanuel Macron, forseti Frakklands, seint í gærkvöldi þegar hann kom að dómkirkjunni. Sagðist hann ætla að hvetja til alþjóðlegs átaks til að endurreisa kirkjuna og fá helsta hæfileikafólk sem völ væri á til starfans.

„Það eru allir afskaplega sorgmæddir og fólk er bara grátandi. Þetta er mjög átakanlegt,“ sagði Laufey Helgadóttir, listfræðingur og leiðsögumaður í París, við Morgunblaðið í gærkvöld. Laufey hefur búið í Parísarborg í meira en 40 ár og heimsótt kirkjuna ótal sinnum. Hefur hún farið ófáar ferðir þangað með Íslendinga í leiðsögn um borgina.

„Hún er hjarta Parísar og þess vegna er þjóðin svona sorgmædd. Hjartað er að brenna og þegar hjartað brennur þá hrynur allt,“ segir Laufey.