Dómur Hæstiréttur Íslands mun fjalla um slitameðferð Saga Capital.
Dómur Hæstiréttur Íslands mun fjalla um slitameðferð Saga Capital. — Morgunblaðið/Golli
Hæstiréttur Íslands hefur tekið til greina beiðni þrotabús Saga Capital hf. um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar frá 5. mars sl. í máli nr. 66/2019: Þrotabú Saga Capital hf. gegn Hildu ehf., á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr.

Hæstiréttur Íslands hefur tekið til greina beiðni þrotabús Saga Capital hf. um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar frá 5. mars sl. í máli nr. 66/2019: Þrotabú Saga Capital hf. gegn Hildu ehf., á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og fl. Var kæruleyfið samþykkt í Hæstarétti Íslands sl. fimmtudag.

Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms um ógildingu ákvörðunar kröfuhafafundar við slitameðferð Saga Capital hf. um að greiða slitastjórn 40.000.000 krónur í þóknun. Sú niðurstaða er byggð á því að fyrir þennan fund hafi slitastjórnin haft þann hátt á að tiltaka í lok hvers kröfuhafafundar að boðað yrði til þess næsta með tölvubréfum og hafi því ekki, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 79. gr. laga nr. 21/1991, verið nægilegt að boða til þessa fundar eingöngu með auglýsingu í Lögbirtingablaði.

Fyrri afgreiðsla sögð röng

„Leyfisbeiðandi byggir á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur og myndi dómur Hæstaréttar í málinu hafa fordæmisgildi um skýringu reglna 3. mgr. 79. gr. laga nr. 21/1991 um boðun skiptafunda. Leyfisbeiðandi vísar einnig til þess að gagnaðili hafi ekki átt kröfu á hendur sér þegar ákvörðunin sem hann vill fá hnekkt var tekin og telur að niðurstaða héraðsdóms, sem Landsréttur lét standa óraskaða, um áhrif kröfuframsals valdi verulegri réttaróvissu. Hafi málið þannig víðtæk áhrif varðandi framkvæmd gjaldþrotaskipta og sé því mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um kæruefnið,“ segir Hæstiréttur.