Afreki Tiger Woods var fagnað víða að verðleikum

Knattspyrnumenn í fremstu röð verða „gamlir“ menn ungir nema helst markmennirnir. „Þetta getur hann, gamla brýnið,“ sagði Bjarni Fel um þrítuga afreksmenn. Sama á við um margar aðrar greinar afreksíþrótta. En þegar þessari fámennu eldlínu er sleppt geta menn auðvitað fram á grafarbrún sýnt glæsitakta og vakið aðdáun í fótbolta, skíðum, golfi eða hlaupum.

En rétt eins og í brauðstritinu gerist það að mannsins innri óvinur grípur hann, t.d. í líki bakkusar eða þess djöfsa sem ræður vítinu sem kennt er við spil og veðmál.

Frægir boltamenn svo sem Best, Gascoigne og Maradona týndu bolta fyrir bús. Enda tíminn naumur til að ná sér upp. Einn áhugaverðasti íþróttamaður samtímans, Ronnie O'Sullivan billjarðmaður, 43 ára afi, stendur nú enn einu sinni á toppi sinnar greinar. O'Sullivan hefur marga fjöruna sopið og átt við ýmsa djöfla, en jafnan brotist frá þeim og er á ný talinn fremstur manna í heiminum og ekki eiga jafningja þótt eldri sé en aðrir atvinnuspilarar.

Og nú síðast glöddust milljónir manna um allan heim með golfsnillingnum Tiger Woods. Fyrir mörgum árum var hann í fremstu röð. En þá féll hann úr toppi og fallið var mikið. Hann lenti í miklu mótlæti og varð það ekki betra þótt stærsti hluti þess væri heimatilbúinn. Lægst fór Woods þegar lögregla birti fangamynd af honum sem illa leiknum þrjóti. Við alla þessa niðurlægingu bættust líkamlegir kvillar og óhjákvæmilegar skurðaðgerðir og lífsklukkan gekk einnig á hann. Það þurfti ekki að afskrifa hann. Woods var búinn fyrir allra augum. Dapurlegt þótti hversu djúpt þessi mikli snillingur sökk.

Fáeinum árum síðar hóf hann þó keppni á ný nær amatörum en afreksmönnum á listum yfir getu. Upplitið var óbjörgulegt. En þrautseigja og viljastyrkur sigruðu réttmætar hrakspár. Um helgina náði Tiger Woods árangri sem fagnað var víða.