Magnús Georg Siguroddsson fæddist í Reykjavík 1. desember 1941. Hann lést 9. apríl, 2019 á Landspítalanum.

Foreldrar hans voru Fanney Long Einarsdóttir frá Seyðisfirði, f. 4.7. 1919, d. 13.11. 2002, og Siguroddur Magnússon, f. í Reykjavík 27.8. 1918, d. 29.10. 2003. Systkini Magnúsar eru Einar Long Siguroddsson, f. 2.11. 1944, giftur Sólveigu Helgu Jónasdóttur, f. 12.4. 1945, Pétur Rúnar Siguroddsson, f. 23.10. 1947, giftur Guðnýju Margréti Magnúsdóttur, f. 22.2. 1948, Sólrún Ólína Siguroddsdóttir, f. 6. september 1953, og Bogi Þór Siguroddsson, f. 19.11. 1959, giftur Lindu Björk Ólafsdóttur, f. 9.4. 1966.

Magnús giftist 9. október 1965 Guðrúnu R. Þorvaldsdóttur, f. 1. desember 1941. Foreldrar hennar voru Þorvaldur Þorsteinsson, f. 6. 12. 1917, d. 22.1. 1998, og Guðrún Tómasdóttir, f. 10.10. 1918, d. 25.6. 2000.

Magnús og Guðrún eignuðust þrjár dætur. Þær eru: 1) Guðrún Anna Magnúsdóttir, f. 4.3. 1962, fyrrv. eiginmaður Stefán Árnason, börn þeirra eru: a) Ólafur Karl Stefánsson, f. 27.7. 1988, b) Anna Laufey Stefánsdóttir, f. 13.3. 1992. 2) Fanney Magnúsdóttir, f. 3.6. 1966, fyrrv. eiginmaður Hólmar Ingi Guðmundsson, þau áttu tvö börn.

Þau eru: a) Guðrún Rósa Hólmarsdóttir, f. 26.9. 1984, sambýlismaður hennar er Gunnar Ingi Widnes Friðriksson, dætur þeirra eru Hjördís Lóa Widnes Gunnarsdóttir og Lilja Snædís Widnes Gunnarsdóttir, en fyrir átti hún Stefaníu Dís Bragadóttur. b) Bjarni Magnús Hólmarsson, f. 28.3. 1989. 3) Ragnheiður Hrefna Magnúsdóttir, f. 27.7. 1974, gift Magnúsi Loga Magnússyni, f. 4.6. 1971. Þau eiga eina dóttur, Sigrúnu Magnúsdóttur, f. 21.11. 2009.

Eftir gagnfræðapróf lærði Magnús rafvirkjun og útskrifaðist sem rafvirki 1962 og í kjölfarið fór hann til Danmerkur og nam rafmagnstæknifræði í Odense Teknikum og útskrifaðist árið 1967. Hann fékk réttindi bæði sem rafvirkjameistari og löggildur raflagnahönnuður. Eftir útskrift flutti hann heim og hóf störf sem rafmagnstæknifræðingur hjá Landsvirkjun á árunum 1967-1971, þá starfaði hann sem fulltrúi Brunamálastjóra á árunum 1971-1973, en árið 1973 stofnaði hann teiknistofuna Ljóstækni og vann við ráðgjöf og hönnun raflagnateikninga til ársins 2010. Hann starfaði einnig um skeið sem kennari við Iðnskólann í Reykjavík á árunum 1991-2009 og sinnti hlutastarfi hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen á árunum 2000-2003.

Útför Magnúsar Georgs fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 16. apríl 2019, klukkan 13.

Það er bæði erfitt og auðvelt að minnast Magga bróður, mágs, í stuttri grein. Hann tók snemma ábyrgð á okkur bræðrunum og þurfti gjarnan að draslast með okkur upp á róló á Freyjugötunni, til ömmu á Urðarstígnum, í sundhöllina, í þrjúbíó í Austurbæjarbíói að horfa á Roy Rogers eða í Gamla bíó að sjá Tarzan. Hann sinnti þessu skylduverki sínu af ótrúlegri þolinmæði og hlýju. Hann naut óskoraðs trausts okkar í þessum ferðum og var okkur skjöldur í þeim ógnum sem gátu mætt okkur. Þannig var hann reyndar alla tíð, lagði okkur lið og var tilbúinn að hjálpa af hógværð og yfirvegun ef eftir því var leitað.

Ég tel að þessi góða nærvera og umhyggja hans hafi orðið mér drjúgt veganesti í störfum mínum sem kennari. Maggi lék því stór hlutverk á þessu tímabili ævi minnar og æ síðan.

Þessi samstaða okkar hefur búið með okkur alla ævi og væntumþykjan hefur alla tíð lifað og dafnað. Okkur var mjög eiginlegt að vinna saman og njóta samveru og fjölskyldulífs sem verið hefur okkur mjög mikilvægt.

Við Helga nutum þess að eiga margar og ánægjulegar stundir með Rúnu og Magga við ýmis tækifæri. Sumarbústaðaferðir með Lóu að Heiðarbæ og páskaferðir í Munaðarnes og víðar. Þær eru líka alltaf lifandi og minnisstæðar móttökurnar í hinu fallega sumarhúsi sem þau byggðu í Stráksmýrinni sem Maggi skipulagði og reisti af mikilli handlagni og hugkvæmni.

Margs er að minnast og þakka á þessum tímamótum. Tryggur og góður bróðir og vinur er kært kvaddur og þökkuð samfylgdin. Blessuð sé minning hans.

Einar Long og Sólveig Helga.

Minningin um ljúfan frænda er efst í huga á þessari kveðjustund.

Við Maggi vorum systkinabörn. Móðir mín, Petrína Margrét Magnúsdóttir, og faðir Magnúsar, Siguroddur Magnússon, ólust upp að Urðarstíg 10 í Reykjavík ásamt systrum sínum Sólveigu og Úlfhildi.

Afi okkar og amma, Magnús Pétursson og Pálína Þorfinnsdóttir, voru bæði fædd og uppalin í Kjósinni en fluttust til Reykjavíkur og byggðu húsið Urðarstíg 10 árið 1920 sem varð heimili og samkomustaður fyrir ættingja, vini og vandamenn.

Urðarstígur 10 var mikilvægur þáttur í lífi okkar barnabarnanna enda fæddust sum okkar þar og önnur vöndu komu sínar þangað. Afi og amma, börn og barnabörn skiptust á skoðunum við aðra ættingja, skáld og stjórnmálamenn. Verkalýðsmálin voru rædd af hugsjón og ástríðu enda öll komin af alþýðufólki. Skáldskapur, rímur og vísur voru í hávegum höfð á heimilinu. Seinna á lífsleiðinni ræddum við Maggi oft um þennan skemmtilega tíma í lífi okkar sem átti sér stað í beinu framhaldi annarrar heimsstyrjaldarinnar sem aftur hafði mótandi áhrif á æsku okkar og lífsviðhorf.

Í starfi hans sem rafmagnstæknifræðingur kom vel í ljós kunnátta hans og útsjónarsemi. Maggi var drífandi einstaklingur og smitaði aðra með áhuga sínum og leiðtogahæfileikum. Hann var í sérstöku dálæti hjá foreldrum mínum vegna góðmennsku sinnar og drengskapar.

Veikindum sínum mætti Maggi með miklu æðruleysi og þá kom sterkt í ljós hversu heilsteyptan mann hann hafði að geyma.

Að leiðarlokum vil ég þakka frænda mínum samfylgdina og senda Rúnu, dætrum og allri fjölskyldunni, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Sigríður Bogadóttir

og fjölskylda.