[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Þorlákshöfn Bjarni Helgason bjarnih@mbl.

Í Þorlákshöfn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Sautjánfaldir Íslandsmeistarar KR fá tækifæri til þess að bæta þeim átjánda í safnið en liðið tryggði sér sæti í úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik eftir 108:93-sigur gegn Þór frá Þorlákshöfn í Icelandic Glacier-höllinni í Þorlákshöfn í gær í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins. KR vann einvígið gegn Þórsurum 3:1 en Þórsarar áttu aldrei möguleika gegn öflugum Vesturbæingum í gær.

KR-ingar byrjuðu leikinn af gríðarlegum krafti og leiddu með tólf stigum eftir fyrsta leikhluta. Þórsarar reyndu að svara í öðrum leikhluta og tókst að minnka forskot KR í ellefu stig og staðan 58:47 í hálfleik. Þórsarar reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn en munurinn á liðunum var ellefu stig eftir þriðja leikhluta. Í fjórða leikhluta sigldu KR-ingar hægt og rólega framúr og lönduðu öruggum sigri í leikslok.

Vesturbæingar byrjuðu leikinn af gríðarlegum krafti og það skóp sigur þeirra í gær. Þeir héldu Þórsurum alltaf vel fyrir aftan sig og misstu þá aldrei framúr sér, allan leikinn. KR-ingar lokuðu gríðarlega vel á Kinu Rochford og þá virðist Pavel Ermolinskij verða betri með hverjum leiknum sem hann spilar. Björn Kristjánsson hefur þurft að sætta sig við mikla bekkjarsetu í úrslitakeppninni en hann svaraði kallinu í gær. Björn kom inn af bekknum og skoraði 19 stig, þar af fimm þriggja stiga körfur, og þær komu allar á gríðarlega mikilvægum augnablikum í leiknum.

Þórsarar byrjuðu leikinn hörmulega og misstu Vesturbæinga alltof langt fram úr sér strax í fyrsta leikhluta. Þeir hittu illa úr skotunum sínum og varnarleikur liðsins var hrein hörmung, sérstaklega í fyrri hálfleik. Kinu Rochford náði sér engan veginn á strik í gær og skoraði einungis 11 stig, þar af þrjú af vítalínunni. Þrátt fyrir að Rochford hafi verið duglegur að finna liðsfélaga sína þá má lið eins og Þór Þorlákshöfn ekki við því að hann skori bara 11 stig og því fór sem fór.

KR er komið í úrslit Íslandsmótsins, sjötta árið í röð, en það voru ekki margir sem spáðu því að KR fengi tækifæri til þess að bætta sjötta titlinum í röð í safnið þegar úrslitakeppnin hófst. Vesturbæingar eru að toppa á hárréttum tíma, þeir eru vel gíraðir og verða að teljast líklegri aðilinn til þess að fagna Íslandsmeistaratitlinum í vor.