Flugeldar Af þeim stafar mikil svifryksmengun og slysahætta.
Flugeldar Af þeim stafar mikil svifryksmengun og slysahætta. — Morgunblaðið/Hari
Ekkert bólar á tillögum frá starfshópi sem umhverfisráðherra skipaði í lok desember um það hvort og þá með hvaða hætti takmarka ætti notkun flugelda og hvernig hægt væri að tryggja að slík takmörkun hefði sem minnst neikvæð áhrif á fjármögnun þeirra...

Ekkert bólar á tillögum frá starfshópi sem umhverfisráðherra skipaði í lok desember um það hvort og þá með hvaða hætti takmarka ætti notkun flugelda og hvernig hægt væri að tryggja að slík takmörkun hefði sem minnst neikvæð áhrif á fjármögnun þeirra verkefna sem björgunarsveitir, aðalsöluaðilar flugelda, inna af hendi í þágu almennings. Sigríður Víðis Jónsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, sagði í gær að vinna starfshópsins hefði dregist vegna anna. Í lok mars sagði hún að von væri á tillögunum fljótlega.

Átti að skila 15. febrúar

Starfshópnum var ætlað að skila tillögum sínum fyrir 15. febrúar sl. en vegna dráttarins verða engar breytingar á flugeldasölu fyrir næstu áramót og væntanlega óbreytt ástand hvað varðar loftmengun frá flugeldum. Í reglugerð um skotelda segir að halda skuli fund með innflytjendum skotelda fyrir lok febrúar ár hvert um mögulegar breytingar á sölu. Þar sem það hefur ekki verið gert verður fyrirkomulagið óbreytt í ár.

Í starfshópnum eru Sigurbjörg Sæmundsdóttir, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu, sem er formaður, Jón Gunnarsson alþingismaður og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Svifryksmengun frá flugeldum var mjög mikil um áramótin 2017-2018 og loftgæði um tíma langt yfir heilsuverndarmörkum, en minni um síðustu áramót.

gudmundur@mbl.is