[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÁTVR seldi áfengi og tóbak auk sölu umbúða fyrir tæpa 35,3 milljarða kr. í fyrra og nam hagnaður ársins um 1.111 milljónum króna. Það er nokkru minni hagnaður en á árinu á undan þegar hann var 1.367 milljónir kr.

ÁTVR seldi áfengi og tóbak auk sölu umbúða fyrir tæpa 35,3 milljarða kr. í fyrra og nam hagnaður ársins um 1.111 milljónum króna. Það er nokkru minni hagnaður en á árinu á undan þegar hann var 1.367 milljónir kr. Heildarveltan á síðasta ári var rúmlega 45 milljarðar.

Ríkissjóður naut góðs af starfseminni í auknum tekjum af áfengis- og tóbaksgjöldum, arðgreiðslu og virðisaukaskatti. Alls fékk ríkið í sinn hlut rúmlega 25,1 milljarð af brúttósölu ÁTVR í fyrra. Þar af fékk ríkissjóður einn milljarð kr. í arð.

Þessar upplýsingar koma fram í nýútkominni ársskýrslu ÁTVR. Eins og fram hefur komið seldust tæpar 22 milljónir lítra af áfengi í Vínbúðunum í fyrra sem er örlítil aukning frá 2017. En aðsóknin hefur sjaldan eða aldrei verið meiri; viðskiptavinirnir voru rúmlega fimm milljónir talsins yfir árið. ÁTVR rekur 51 áfengisverslun auk vefverslunar og þar var í nógu að snúast. ,,Þegar mest var að gera komu 611 viðskiptavinir í Vínbúðina Skeifunni á einum klukkutíma. Það gerir um 10 viðskiptavini á mínútu. Í versluninni eru fimm afgreiðslukassar og þennan klukkutíma tók það að meðaltali þrjátíu sekúndur að afgreiða hvern viðskiptavin á kassa. Það þýðir að á sex sekúndna fresti er einn viðskiptavinur afgreiddur í gegnum búðina. Líklega er þetta einn mesti afgreiðsluhraði sem þekkist í smásölurekstri. Ljóst er að allt þarf að ganga upp til þess að þetta sé hægt. Starfsfólkið, afgreiðslukerfin, bílastæði og umferðarflæði. Þrátt fyrir lengdan afgreiðslutíma á undanförnum árum kjósa margir að gera áfengisinnkaup sín milli klukkan fimm og sjö á föstudögum,“ segir Ívar J. Arndal, forstjóri ÁTVR, í ársskýrslunni.

Framleiddu 45 tonn neftóbaks

Sala á sterku áfengi tók stökk í fyrra og jókst um 20% milli ára en sala á léttvíni dróst saman um 3,3%. Sala á bjór jókst lítillega milli ára. Á sama tíma og sala á vindlum og sígarettum dróst mikið saman jókst sala neftóbaks um 18,7% í fyrra. Þá voru framleidd 45 tonn af neftóbaki og hefur framleiðslan margfaldast á síðustu árum.

Heildarfjöldi starfsmanna sem fengu greidd laun á árinu var 700 en 239 voru fastráðnir. Fyrirtækið var valið fyrirmyndarstofnun af SFR í fyrra og vakin er athygli á því í ársskýrslunni að Vínbúðin státi af ánægðustu viðskiptavinunum í flokki fyrirtækja á smásölumarkaði í Íslensku ánægjuvoginni. Áhersla er lögð á fjölbreyttara vöruúrval og voru 636 nýjar vörur teknar í reynslusölu í fyrra.

29 þús. á venjulegum föstudegi

Yfir helmingur viðskiptavina ÁTVR kemur í Vínbúðirnar á föstudögum og laugardögum. ,,Föstudagar eru stærstir en að jafnaði koma um 29 þúsund viðskiptavinir á hefðbundnum föstudegi,“ segir í ársskýrslunni.

Í fyrra heimsóttu flestir viðskiptavinir Vínbúðirnar miðvikudaginn 28. mars, þ.e. daginn fyrir skírdag, eða tæplega 41 þúsund. Tekið er fram að í fyrra bar 23. og 30. desember upp á sunnudag og þá var lokað í Vínbúðunum. ,,Þessir dagar hafa að jafnaði verið annasömustu dagar ársins. Álagið dreifðist því nokkuð á nærliggjandi daga, en þó stendur upp úr að 31. desember komu tæplega 30 þúsund viðskiptavinir og miðað við afgreiðslutíma er sá dagur stærsti dagur ársins. Alls fengu um 5.000 þúsund viðskiptavinir þjónustu á hverri klukkustund þann dag.“

Ítalskt rauðvín í toppsætinu frá 2013

Sundurliðun á heildarsölu víntegunda í Vínbúðum ÁTVR leiðir m.a. í ljós að ítalskt rauðvín seldist mest í lítrum talið í fyrra, líkt og undanfarin ár, en rauðvín frá Spáni er í öðru sæti. Ítalskt vín hefur haldið forystunni frá 2013 en rauðvín frá Síle hafði þá um árabil verið söluhæst.

Þó að innlendur bjór seljist í mun meira magni en innfluttur þá lét hann aðeins undan í fyrra. Í seldum lítrum talið var hlutdeild innlenda bjórsins 65% en innflutta 35%. Gylltur Víking seldist í mesta magninu af lagerbjórum eða um tvöfalt meira en næstvinsælasti bjórinn, Faxe Premium frá Danmörku. Sala á öli og öðrum bjórtegundum sýnir að Einstök White ale seldist langmest í lítrum talið í fyrra.

Hulduheimsóknir skiluðu árangri

Starfsfólk Vínbúðanna er þjálfað í að spyrja um aldur viðskiptavina og við skilríkjaeftirlitið eru einnig framkvæmdar svokallaðar hulduheimsóknir. Þær fara þannig fram að 20 til 24 ára viðskiptavinir versla í Vínbúðunum og skila síðan niðurstöðum um hvort þeir voru spurðir um skilríki eða ekki.

Í ársskýrslu ÁTVR um árangurinn í fyrra segir að hulduheimsóknir séu framkvæmdar í öllum stærri Vínbúðum, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu, Selfossi, í Reykjanesbæ og á Akureyri.

,,Að meðaltali eru þrjár heimsóknir í mánuði í hverja Vínbúð. Árangurinn var góður, betri en undanfarin ár, eða 87% og rétt undir markmiði ársins sem var 88%.“