Gunnar Björnsson
Gunnar Björnsson
Eftir Gunnar Björnsson: "Passíusálmarnir eru tilvalið lestrarefni til uppbyggingar í kristinni trú, sem er „siguraflið, sem sigrað hefur heiminn“ (I. Jóh. 5.4)."
Óendanlegt þakkarefni er það, að vér Íslendingar skyldum eignast síra Hallgrím Pétursson (1614-1674), þennan mikla velgerðamann íslenskrar þjóðar og kirkju. Ævi skáldsins og verk hans, Passíusálmarnir, eru svo kunnug landsmönnum, að óþarft er að rekja hér. Hann hefur verið óumdeildur höfuðkantór íslenskrar kristni allar götur síðan, mikilfenglegur skáldjöfur og ókrýndur konungur íslenskra kennimanna, er sló þann tón, er svo er sterkur, mjúkur og hreinn, að ekki er ofmælt þótt sagt sé, að hann hafi lagt bænarorð á tungu Íslendinga hvar sem kirkjuklukka hefur verið hreyfð, farið með gott orð eða sálmur sunginn þá meira en hálfu fjórðu öld, sem liðin er frá fyrstu prentun Passíusálma, allt „frá því barnið biður fyrsta sinn“ – og „til þess gamall sofnar síðstu stund“. Það er mælt, að listin sé einn hundraðshluti hæfileikar og 99 hundraðshlutar vinna. Leikni síra Hallgríms og bjargið, sem hann stendur á í trúarefnum, eru þess valdandi, að sálmar hans eiga jafnbrýnt erindi við nútímann og þeir áttu við samtíð hans. Hlutlæg, sérstæð og ljóðræn tök þessa meistara á yrkisefninu, ásamt með óbrigðulu tungutaki og fegurðarskyni, gera það að verkum, að Passíusálmarnir eru dásamlegt og óviðjafnanlegt listaverk, en jafnframt, enn í dag, tilvalið lestrarefni til uppbyggingar í kristinni trú, þeirri trú, sem vér tökum undir með postulanum, að sé „siguraflið, sem sigrað hefur heiminn“ (I. Jóh. 5:4).

Höfundur er pastor emeritus.