Eins ótrúlega pirrandi og meiðsli eru – þessi órjúfanlegi hluti af íþróttunum sem herjað getur á fólk jafnvel þó að það geri allt „eftir bókinni“ til að forðast hann – þá er jafndásamlegt að sjá fólk vinna sig út úr meiðslum og...
Eins ótrúlega pirrandi og meiðsli eru – þessi órjúfanlegi hluti af íþróttunum sem herjað getur á fólk jafnvel þó að það geri allt „eftir bókinni“ til að forðast hann – þá er jafndásamlegt að sjá fólk vinna sig út úr meiðslum og snúa aftur í sitt fyrra form.

Hversu margir ætli hafi fyrir 2-3 árum verið búnir að afskrifa að Tiger Woods gæti aftur unnið risamót? Allir? Eftir sigurinn á US Open árið 2008 hafa meiðsli í hásinum, hnjám og þó aðallega baki plagað hann verulega (sjálfsagt að ógleymdum fávitaskap í einkalífinu) og heilu misserin liðu án þess að hann gæti spilað.

Þegar hann spilaði var hann svo ekki sá Tiger sem fólk mundi eftir, sem er vel skiljanlegt vegna meiðslanna, og mönnum fyrirgefst að hafa afskrifað hann. Tiger var búinn að spila á 28 risamótum í röð án sigurs og orðinn 43 ára gamall þegar Masters-mótið hófst um helgina. Lengst fór hann niður í sæti 1.199 á heimslistanum í lok árs 2017, áður en endurkoman hófst.

Frá því að Tiger féll úr hópi þeirra hæst skrifuðu hefur golfheimurinn leitað að nýrri stjörnu til að taka við af honum. Enginn hefur komist nálægt því. Samt get ég ekki sagt að það sé neitt heillandi við það hvernig hann tjáir sig í viðtölum eða lætur utan vallar. Frammistaða hans, árangur og ástríða innan vallar er það sem hrífur fólk með og gerir hann að einum vinsælasta íþróttamanni heims.

Saga Tigers ætti að vera öðrum lexía, rétt eins og fleiri endurkomur íþróttafólks. Þar má sem dæmi nefna Eið Smára Guðjohnsen sem fékk að heyra að hann myndi aldrei geta spilað fótbolta aftur eftir fótbrotið alvarlega þegar hann var táningur.