Ólafur Þór Hauksson
Ólafur Þór Hauksson
Embætti héraðssaksóknara vinnur nú að því að reyna að fá sem gleggsta mynd af því sem gerðist aðfaranótt þriðjudags í síðustu viku, er kona á þrítugsaldri lést skömmu eftir að lögregla hafði afskipti af henni.

Embætti héraðssaksóknara vinnur nú að því að reyna að fá sem gleggsta mynd af því sem gerðist aðfaranótt þriðjudags í síðustu viku, er kona á þrítugsaldri lést skömmu eftir að lögregla hafði afskipti af henni.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari sagði í samtali við mbl.is í gær að embættið skoðaði nú allt sem gæti varpað ljósi á atburði umrætt kvöld. Hann gat ekkert gefið nánar upp um framgang rannsóknarinnar, né áætlað hversu langan tíma hún mundi taka.

Saksóknaraembættið rannsakar málið á grundvelli 35. gr. lögreglulaga, en þar segir að héraðssaksóknara beri að rannsaka kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans og einnig atvik sem eftirlitsnefnd telji þörf á að taka til rannsóknar þegar maður lætur lífið, hann verður fyrir stórfelldu líkamstjóni eða lífi manns er hætta búin, í tengslum við störf lögreglu, óháð því hvort grunur er um refsivert brot.