Hjálpareggið Í því er vítamínbætt jarðhnetumauk ætlað börnum.
Hjálpareggið Í því er vítamínbætt jarðhnetumauk ætlað börnum. — Ljósmynd/UNICEF
UNICEF á Íslandi selur nú páskaegg sem fyllt eru með hjálpargögnum fyrir börn í neyð.

UNICEF á Íslandi selur nú páskaegg sem fyllt eru með hjálpargögnum fyrir börn í neyð. Eggin eru hluti af Sönnum gjöfum, sem eru gjafir seldar á vefsíðu UNICEF, og í fréttatilkynningu er haft eftir Steinunni Jakobsdóttur, kynningarstjóra UNICEF á Íslandi, að eggin hafi fengið afar góðar viðtökur. „Það er virkilega gaman að sjá hvað margir hafa kosið að kaupa eggin okkar, ýmist sem gjöf eða handa sjálfum sér sem viðbót við gamla góða súkkulaðieggið, enda engin nauðsyn að velja bara annað hvort,“ er haft eftir Steinunni.

Í boði eru þrjú mismunandi páskaegg. Neyðareggið breytir óhreinu vatni í drykkjarvatn, en það inniheldur 3.500 vatnshreinsitöflur sem hreinsa samtals 17.500 lítra af vatni. Töflurnar verða sendar á svæði þar sem hreint vatn er af skornum skammti.

Hjálpareggið læknar vannæringu, það er fyllt með vítamínbættu jarðhnetumauki sem inniheldur öll næringarefni og vítamín sem vannærð börn þurfa.

Þriðja eggið kallast einfaldlega Páskaeggið og það inniheldur 1.500 vatnshreinsitöflur, 15 skammta af jarðhnetumauki, 4 lítra af næringarmjólk og 50 skammta af næringardufti.