Tónlistarveisla Hrafnhildur Árnadóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Júlía Mogensen, Peter Maté, Vivi Ericson, Laufey Sigurðardóttir og Sigurlaug Eðvaldsdóttir koma fram á tvennum tónleikum í Mývatnssveit í vikunni.
Tónlistarveisla Hrafnhildur Árnadóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Júlía Mogensen, Peter Maté, Vivi Ericson, Laufey Sigurðardóttir og Sigurlaug Eðvaldsdóttir koma fram á tvennum tónleikum í Mývatnssveit í vikunni. — Morgunblaðið/Eggert
„Það er einstaklega ánægjulegt að flytja fallega kammertónlist í góðum hópi meðleikara í skemmtilegu umhverfi,“ segir Laufey Sigurðardóttir fiðluleikari, sem í 22. sinn stendur fyrir tónlistarhátíðinni Músík í Mývatnssveit um bænadagana.

„Það er einstaklega ánægjulegt að flytja fallega kammertónlist í góðum hópi meðleikara í skemmtilegu umhverfi,“ segir Laufey Sigurðardóttir fiðluleikari, sem í 22. sinn stendur fyrir tónlistarhátíðinni Músík í Mývatnssveit um bænadagana. Með henni koma fram Hrafnhildur Árnadóttir sópran, Hildigunnur Einarsdóttir mezzósópran, Sigurlaug Eðvaldsdóttir fiðluleikari, Vivi Ericson víóluleikari, Júlía Mogensen sellóleikari og Peter Maté píanó- og orgelleikari.

Fyrri tónleikar hópsins verða í félagsheimilinu Skjólbrekku á skírdag kl. 20 og þeir seinni í Reykjahlíðarkirkju föstudaginn langa kl. 20. „Að vanda verður léttari blær yfir tónleikum skírdagsins og meiri þungi ríkjandi á föstudaginn langa. Fyrra kvöldið flytjum við eitt glæsilegasta kammerverk tónbókmenntanna sem er píanókvintettinn eftir Dvorák. Einnig eru á efnisskránni aríur, einsöngslög og dúettar eftir Brahms, Schumann, Grieg, Kaldalóns og Mozart. Meginuppistaða tónleikanna í Reykjahlíðarkirkju er hið undurfallega Stabat Mater eftir Pergolesi, en að auki verður flutt tónlist eftir Bach, Rossini og Delibes,“ segir Laufey og tekur fram að líkt og áður komi vinkonur hennar úr Vogafjósi með veitingar í hléinu í Skjólbrekku. Spurð hvort tónleikarýmin séu góð svarar Laufey því játandi. „Skjólbrekka er sérlega skemmtilegt hús, þeir eru heppnir með það Mývetningar,“ segir Laufey og tekur fram að í húsinu ríki afar góður andi auk þess sem hljómburðurinn njóti sín vel í kammerverkum.

„Við Vivi höfum þekkst frá námsárum okkar í Bandaríkjunum og spiluðum saman í kvartett fyrir margt löngu,“ segir Laufey og tekur fram að sér hafi þótt einstaklega skemmtilegt að geta boðið Vivi Ericson að koma fram á hátíðinni í ár. „Það hleypur nýju blóði í hátíðina að fá nýtt fólk til samstarfs. Jafnframt er gaman að fá til liðs við okkur tvær afbragðssöngkonur sem vakið hafa verðskuldaða athygli á umliðnum misserum.“

silja@mbl.is