Steingrímur Gíslason fæddist á Torfastöðum í Grafningi 22. september 1921. Hann lést á Ljósheimum á Selfossi 8. apríl 2019.

Foreldrar hans voru Árný Valgerður Einarsdóttir, f. 1885 á Litla-Hálsi í Grafningi, d. 1966, og Gísli Snorrason, f. 1883 á Þórustöðum í Ölfusi, d. 1958.

Systkini Steingríms voru Sigríður, Einar, Kristín, Steindór, Snorri Engilbert, Þórður, Arnheiður, Áslaug og Guðríður, öll látin.

Steingrímur giftist 13. desember 1959 Birnu Aðalheiði Árdal Jónsdóttur, f. 24. ágúst 1937, frá Réttarholti í Akrahreppi í Skagafirði, d. 22. maí 2003. Foreldrar hennar voru Jón Sigurðsson, bóndi í Réttarholti, f. 1890, d. 1972, og Kristrún Helgadóttir, f. 1909, d. 1950, frá Hafgrímsstöðum í Tungusveit. Fósturmóðir Birnu var Sigríður Rögnvaldsdóttir, f. 1886, d. 1972.

Börn Steingríms og Birnu: 1) Birgir Árdal, f. 1955, maki Margrét Jónsdóttir. Börn Jón Sveinberg, Birna Aðalheiður Árdal, Sesselja Sólveig og Sveinn Ægir. 2) Sigríður f. 1959, d. 1994, maki Bergur Guðmundsson. Börn þeirra Guðmundur, Andri Már og Kristín Hanna. Seinni kona Bergs er Sigrún Óskarsdóttir. 3) Árný Valgerður, f. 1960, maki Friðgeir Jónsson. Börn þeirra Steingrímur, Linda Björk, Katrín Ýr og Anna María. 4) Jensína Sæunn, f. 1962, maki Ægir Stefán Hilmarsson. Börn þeirra Haukur Páll og Helena Dögg. 5) Aðalheiður Jóna, f. 1963, maki Björn Magnússon. Barn Hugrún Harpa. 6) Gísli, f. 1965, maki Ragnheiður Sigmarsdóttir. Börn Árdís Lilja, Guðlaug Bergmann og Helga Bergmann. 7) Kristín Rósa, f. 1967, d. 2010, var í sambúð með Magnúsi Inga Guðmundssyni, þau slitu samvistum. 8) Sigurður Þór, f. 1971, maki Guðbjörg Bergsveinsdóttir. Börn Rebekka Rut og Birkir Máni.

Barnabarnabörnin eru 19 talsins.

Steingrímur ólst upp á Torfastöðum. Hann fór ungur að vinna, fór m.a. á vertíðir í Þorlákshöfn, í Bretavinnu í Kaldaðarnesi og vegavinnu, en vann þess á milli að búi foreldra sinna. Steingrímur tók við búinu 1951 og byggði upp jörðina.

Hann var hreppstjóri og skólabílstjóri til margra ára ásamt ýmsu fleiru en fyrst og fremst var hann bóndi af lífi og sál.

Útför Steingríms fer fram frá Selfosskirkju í dag, 16. apríl 2019, klukkan 13.

Elsku karlinn, þá er komið að kveðjustund. Ótal minningar koma upp í hugann þegar ég sest niður og horfi yfir farinn veg.

Pabba var margt til lista lagt, hann var handlaginn og smíðaði meðal annars skíði, skauta og skeifur ásamt fleiri hlutum ýmist úr járni eða við. Pabbi hafði gaman af því að fara með okkur krakkana á skauta á Álftavatni en einnig bjó hann til svell í sveitinni fyrir okkur til þess að skauta á, vakti það alltaf mikla lukku. Sjálfur skautaði hann mikið á yngri árum.

Pabbi var ákveðinn, þrjóskur og hafði miklar skoðanir á hlutunum. Sem ungur maður var hann bjartsýnn og vinnusamur, enda þurfti mikla framsýni og dugnað til þess að ráðast í byggingu á öllum húsunum á Torfastöðum. Fljótlega kom mamma til sögunnar og var hún ómetanlegur liðstyrkur fyrir pabba við framkvæmdirnar í sveitinni og í lífinu, en einnig voru þar margir góðir vinnumenn og sköpuðust dýrmæt vináttubönd sem entust alla ævi.

Minningarnar um pabba og samverustundir okkar í gegnum árin streyma fram og á ég góðar minningar um það þegar við unnum saman í útiverkum í denn. Skemmtilegar minningar þar sem oftar en ekki var verið að elta rollurassa. Við fjölskyldan ferðuðumst nokkrar skemmtilegar ferðir saman sem sumar urðu lengri en áætlað var í fyrstu. Ein kemur sérstaklega upp í hugann þar sem fara átti að Hagavatni. Sú ferð lengdist því pabba þótti þá stutt í Kerlingarfjöll. Þegar í Kerlingarfjöll var komið fengu ferðalangar sér nesti sem ég hafði smurt í mannskapinn því ég þekkti mitt fólk og þótti líklegt að farið yrði lengra. Og allt kom fyrir ekki því pabba þótti þá vera stutt frá Kerlingarfjöllum á Hveravelli svo haldið var áfram. Þegar komið var á Hveravelli sagði pabbi að nú væri orðið styttra norður af en á Gullfoss. Svo hringt var í vin og kvöldkaffi pantað á Laugarbakka í Miðfirði. Þessi ágæti sunnudagsbíltúr endaði á Torfastöðum og var um það bil 650 km dagstúr. Allir voru yfir sig ánægðir með ferðina. Við nutum þess að ferðast saman og skruppum við í nokkra dagstúra eftir að pabbi var kominn á Ljósheima, þar sem hann naut þess að ferðast um landið sitt. Við kíktum meðal annars á Snæfellsnesið og til Vestmannaeyja.

Eftir að mamma féll frá urðu miklar breytingar. Mamma hafði alltaf aðstoðað pabba varðandi sykursýkina en þegar hún féll frá þurfti hann að sjá um sig sjálfur. Ég er virkilega stolt af því hve duglegur og skipulagður hann var varðandi sjúkdóminn. Samband okkar varð enn nánara eftir að mamma féll frá þar sem ég fylgdist með pabba og mælingum á sykrinum og við heyrðumst í síma að lágmarki tvisvar á dag. Um nokkurra mánaða skeið, áður en pabbi komst inn á Ljósheima, bjó hann hjá okkur í Dælenginu, þar þótti pabba gott að hafa umgang og líf í kringum sig, skapaðist þá dýrmætt samband milli barnanna á heimilinu og pabba sem varði alla hans ævi.

Pabbi var stoltur af hópnum sínum öllum og sagðist oft vera ríkur maður að eiga þennan stóra hóp. Við erum afar þakklát fyrir allan okkar tíma saman og góðar minningar. Hvíl í friði, elsku pabbi.

Árný Valgerður

Steingrímsdóttir.

Elsku afi. Við systur settumst saman niður og rifjuðum upp gamlar góðar minningar úr sveitinni.

Í okkar huga var afi mjög duglegur maður, nægjusamur með eindæmum, þrjóskur og hafði miklar skoðanir á því hvernig gera átti hlutina í sveitinni. Við rifjum upp góða tíma þar sem afi var ávallt ánægður að fá fótboltastelpurnar sínar til þess að hjálpa til við smalamennsku á túnunum heima í sveit, þar sem takkaskórnir hentuðu einstaklega vel í blautu grasinu.

Við fórum margar ferðir með afa á rúntinum á græna Volvónum með ullarteppinu í aftursætinu þar sem við hossuðumst um þegar afi keyrði á túnunum á eftir rollum og skipaði Smala og Týru sínum fyrir. Við, léttar á fæti, þurftum oft að hlaupa út úr bílnum til þess að opna eða loka hliðum og passa að rollur færu rétta leið.

Einnig ofarlega í huga eru minningar um „Gudduréttir“ og Grafningsréttir þar sem dregið var í dilka og notið veitinga í réttakaffi. Á leið heim á Torfastaði fengum við stundum að sitja í traktornum með afa og jafnvel taka í stýrið.

Eitt af því sem við tengjum hvað helst við afa er silfraða tóbakshornið sem fylgdi honum allt frá því að við munum eftir honum. Afi tók alltaf mikið í nefið en hann skildi engan útundan og fengum við barnabörnin oft í nefið úr lokuðu tóbakshorninu.

Í seinni tíð eða eftir að afi fluttist til okkar í Dælengið og síðar á Ljósheima einkenndust samverustundirnar af þakklæti og stolti.

Afi var alltaf áhugasamur um okkur systurnar. Hann vildi vita hvernig gengi í náminu og þegar leikir voru í fótboltanum, beið afi spenntur eftir úrslitum og fréttum af gengi. Þegar barnabarnabörnin komu til sögunnar var hann alltaf mjög áhugasamur um þau og hvernig þau döfnuðu. Við systurnar reyndum að kíkja sem oftast í heimsókn til afa á Ljósheima og komu barnabarnabörnin stundum með. Við áttum ófáar og ómetanlegar gæðastundir í spjalli með afa á Ljósheimum eða heima í Dælengi yfir hádegisverði.

Elsku afi okkar, við söknum þín sárt, takk fyrir allt og allt.

Hvíl í friði.

Anna María Friðgeirsdóttir og Katrín Ýr Friðgeirsdóttir.

Símtalið sem ég fékk á mánudagsmorgninum kom lítið á óvart. Þar fékk ég þær fréttir að afi væri dáinn. Afi var með áhugaverðan persónuleika. Hann var mögulega ein af þrjóskustu manneskjum sem ég þekkti og sérvitrari en allt. Það einkenndi mikið persónuleikann hans, yfirleitt til hins betra. Við barnabörnin virtum hann og hann kenndi okkur margt áhugavert. Við máttum meðal annars ekki segja „hæ“ og „bæ“ við hann. Það átti alltaf að segja „komdu blessaður og sæll“ og „vertu blessaður“. Hann komst líka langt á þrjóskunni eins og að vera bóndi til tæplega 90 ára aldurs. Hann elskaði sveitina og vildi vera eins lengi og hann gat þar.

Það var alltaf gaman að fara í sveitina til afa og ömmu. Að fá að fylgjast með sauðburðinum og þegar það var verið að marka fannst mér mest spennandi. Eins og ég man það sat afi alltaf á gulri fötu með svampi ofan á. Hann fékk lömbin í sínar hendur, setti þau á milli fóta sinna og markaði þau, mamma mín skráði niður númerið sem lömbin fengu og svo skilaði ég þeim til mæðra sinna. Þessi gula fata var með í hverri einustu mörkun sem ég man eftir.

Afi passaði vel inn í staðalímynd gamalla bænda hér á landi að mínu mati. Hann var alltaf með tóbakshorn, vasaklút, vasahníf og baggabönd í vasanum. Það nýttist honum vel þegar jarðskjálfti reið yfir 2008. Þá var hann einn í sveitinni og stóra túbusjónvarpið hans var nálægt því að detta niður. Hann náði sér þá í baggaband í vasann og batt sjónvarpið svo það dytti ekki ef annar skjálfti kæmi.

Afi var líka mjög stoltur af því að vera bóndi og sérstaklega frá Torfastöðum. Torfastaðir áttu hug hans og hjarta enda hafði bærinn verið í fjölskyldunni áður en hann fæddist. Eftir að hann fór þaðan fannst mér hann finna fyrir nýju stolti. Það voru afkomendurnir. Hann leit á sig svo heppinn að sjá allt þetta fólk vaxa og dafna í kringum sig og að það væri að lifa lífinu. Við áttum ágætt spjall um það þegar ég kom í heimsókn til hans á sjúkrahús í bænum nú fyrir stuttu. Ég sagði honum frá plönum mínum næstu mánuði, að ég væri að fara til London nokkrum dögum eftir þessa heimsókn og svo til Suður-Afríku í maí. Hann var mjög áhugasamur um þessar ferðir og enda þótt hann hafi ekki farið oft utan fannst honum mjög skemmtilegt að fá hringingu frá útlöndum og að heyra ferðasögur. Svo sagði ég honum að ég væri að gera örnefnakort af Torfastöðum í skólanum. Hann fylltist áhuga yfir því að barnabarn hafði áhuga á að gera skólaverkefni um æskuslóðir hans en því miður hafði ég ekki tækifæri á að sýna honum lokaniðurstöðuna.

Takk afi fyrir allar góðu stundirnar.

Þín

Hugrún Harpa.