Upp Fjölnismenn fagna úrvalsdeildarsætinu eftir leikinn í Hveragerði.
Upp Fjölnismenn fagna úrvalsdeildarsætinu eftir leikinn í Hveragerði. — Ljósmynd/Facebooksíða Fjölnis
Fjölnismenn úr Grafarvogi tryggðu sér í gærkvöld sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik með því að vinna fjórða úrslitaleik umspilsins gegn Hamri en hann fór fram í Hveragerði og lauk 109:90, Fjölni í vil.

Fjölnismenn úr Grafarvogi tryggðu sér í gærkvöld sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik með því að vinna fjórða úrslitaleik umspilsins gegn Hamri en hann fór fram í Hveragerði og lauk 109:90, Fjölni í vil. Tvö ár eru liðin síðan Fjölnir féll úr úrvalsdeild karla.

Fjölnir, sem var með 2:1 forskot eftir sigur á heimavelli í þriðja leiknum á föstudagskvöldið, var yfir 29:23 eftir fyrsta leikhluta og 54:48 í hálfleik. Eftir þriðja leikhluta stóð 83:68 og Grafarvogsbúar sigldu sigrinum örugglega í höfn á lokasprettinum.

Það eru því Fjölnir og Þór frá Akureyri sem koma í stað Skallagríms og Breiðabliks í úrvalsdeildinni á næsta tímabili.

Srdan Stojanovic skoraði 24 stig fyrir Fjölni, Marques Oliver 24 og Vilhjálmur Theodór Jónsson 21. Þá skoraði Róbert Sigurðsson 17 stig og átti 14 stoðsendingar.

Everage Lee Richardson skoraði 25 stig fyrir Hamar og Julian Rajic 18. sport@mbl.is