Þorvaldur Kristinn Friðriksson Hafberg fæddist á Flateyri 19. júlí 1932. Hann lést 30. mars 2019.

Foreldrar hans voru Friðrik Einarsson Hafberg, f. 13.1. 1893, d. 2.8. 1966, og Vilborg Ágústa Þorvaldsdóttir Hafberg, f. 7.8. 1897, d. 18.1. 1998.

Systkini Þorvaldar: Sveinn Friðriksson Hafberg, f. 21.4. 1934, d. 25.5. 1981, Ingibjörg Friðriksdóttir Hafberg, f. 14.8. 1935, og Ágústa Jóhanna Friðriksdóttir Hafberg, f. 14.4. 1937, d. 8.1. 2017. Hálfbræður Þorvaldar, samfeðra, voru Einar Jens Hafberg, f. 8.8. 1919, d. 2.1. 1974, Ágúst Hafberg, f. 30.6. 1927, d. 16.5. 2001, Karl Friðriksson Hafberg, f. 5.8. 1927, d. 27. 9. 2009.

Fyrri kona Þorvaldar var Guðrún Andrésdóttir, f. 23.5. 1932, börn þeirra: Andrés Hafberg, f. 30.11. 1949. M. Sólveig Guðjónsdóttir, börn þeirra Þorvaldur Hafberg, f. 15.6. 1974, m. Helga Sigurrós Björnsdóttir, Rakel Hafberg, f. 16.6. 1976, m. Ragnar Már Vilhjálmsson, Guðrún Hafberg, f. 10.7. 1986, m. Ragnar Þór Bjarnason. Barnabörnin eru fjögur.

Friðrik Hafberg, f. 25.5. 1954. M. 1 Sigríður Ingólfsdóttir, barn þeirra Svavar Friðriksson, f. 12.5. 1973, m. Kristjana Helga Sigurgeirsdóttir. M. 2 Unnur Petra Sigurjónsdóttir, barn þeirra Sigurjón Friðriksson, f. 10.1. 1984, m. Arna Viktoría Gísladóttir, sonur Unnar Valdimar Þór Valdimarsson, f. 23.1. 1974, m. Herdís Biering Guðmundsdóttir. M. 3 Hrafnhildur Sigurgeirsdóttir. Barnabörnin eru níu.

Anna Hafberg, f. 10.3. 1962. M. Þór Daníelsson (skilin), barn þeirra Ísak Hafberg, f. 1.11. 1990, m. Jóhann Karl Hirst.

Seinni kona Þorvaldar var Nonný Unnur Björnsdóttir, f. 15.9. 1938, d. 3.1. 2009. Dætur hennar eru Linda Vilhjálmsdóttir, f. 1958, m. Mörður Árnason. Hafdís Vilhjálmsdóttir, f. 1960, dætur hennar Vera Sölvadóttir, f. 1981, og Sara Björk Regal, f. 1989. Ásta Vilhjálmsdóttir, f. 1962, m. Steinþór Birgisson, dætur hennar Þórhildur Kristjánsdóttir, f. 1992, og Katla Steinþórsdóttir, f. 2003.

Þorvaldur ólst upp á Flateyri. 14 ára réðst hann sem messagutti á togarann Gylli frá Flateyri. Í Héraðsskólanum í Reykholti var hann 1948-50. Var við nám í vélsmiðju á Flateyri 1949-1950 og í trésmíðanámi í Reykholti veturinn 1952. Vann ásamt fyrri konu sinni að búi tengdaforeldra sinna í Síðumúla 1951-1958, bóndi þar frá 1957. Til Reykjavíkur fluttu þau árið 1958. Þar hóf Þorvaldur nám í rafvirkjun hjá Steini Guðmundssyni og lauk sveinsprófi undir hans handleiðslu. Öðlaðist meistararéttindi og löggildingu og starfaði við fagið til 1969. Jafnframt gerði hann út vélbátinn Kristján RE 250 frá 1965 til 1970. Árin 1970-1973 var hann eftirlitsmaður með strætisvögnum Landleiða (Hafnarfjarðarstrætó). Frá 1973 til 1986 var hann útgerðarstjóri hjá Ísbirninum í Reykjavík, en eftir sameiningu við BÚR og stofnun Granda lét hann af því starfi og gerðist fasteignamatsfulltrúi hjá Fasteignamati ríkisins til 2002 er hann lét af störfum vegna aldurs.

Útförin fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 16. apríl 2019, klukkan 15.

Elsku Valdi afi hefur sofnað svefninum langa og dansar nú vonandi við ömmu Nonný eins og hann sagði svo oft þegar talað var um dauðann. Valdi talaði alltaf umbúðalaust bæði um lífið og dauðann enda raunsær og jarðbundinn maður.

Minningar mínar um afa einkennast af rósemi hans, skilningi á lífinu, festu og virðingu fyrir mönnum og dýrum.

Við í fjölskyldunni vorum svo heppin að hafa fengið afa að láni. Valdi tók saman við ömmu Nonný þegar ég var barn og ég eyddi stórum hluta barnæskunnar á öruggu heimili Valda og ömmu sem oft komu mér í foreldra stað. Á tímabili bjó ég hjá þeim á Langholtsveginum á meðan ég lauk barnaskóla á Íslandi eftir að mamma mín og systir fluttust til Frakklands. Þar var margt bardúsað og Valdi eyddi ómældum tíma í að útskýra fyrir mér stærðfræðina sem þvældist fyrir mér.

Afi Valdi var þolinmóður maður og skildi að lífið þurfti ekki að gerast hratt. Hann þekkti erfiða tíma eins og flestir af hans kynslóð og var ekki mikið gefinn fyrir nútímatækni eða þann hraða sem samfélag okkar hefur tileinkað sér. Eftir því sem ég eldist skil ég þá afstöðu hans ætíð betur. Þegar þau amma Nonný fluttu á Stokkseyri var Valdi kominn nær upprunanum, hann vildi vera í sveitinni og við sjóinn enda ekki mikið borgarbarn. Hann eignaðist hesta og íslenska fjárhundinn Snúllu sem hann unni mjög.

Þegar hann fluttist í bæinn eftir að amma dó vildi hann ekki bjóða tíkinni upp á borgarlífið heldur sendi hana í sveit þar sem hann heimsótti hana á afmælisdegi hennar og tók hana með sér í stutt ferðalög þar til hún kvaddi.

Ég minnist afa líka sem manns sem vildi alltaf hafa eitthvað fyrir stafni. Hann var listrænn og mikill handverksmaður og sú list fékk að blómstra í seinni tíð. Hann fór á hin ýmsu listnámskeið, renndi fyrir okkur skrín, málaði, tálgaði og skar út og smíðaði silfurskartgripi sem hann færði okkur stelpunum sínum. Valda þótti gott að hafa kvennafans í kringum sig enda fæðast ekki drengir okkar megin í fjölskyldunni. Hann vissi allt um okkar hagi og hann lét okkur ávallt finna fyrir því að við skipuðum sérstakan sess í hjarta hans.

Það var ljúft að heimsækja afa síðustu árin á Brávallagötuna með Sögu dóttur minni sem alltaf vildi vera með í för, það kætti okkur öll.

Í einni af mínum síðustu heimsóknum til Valda sagðist hann vera orðinn leiður á því að vera gamall og bætti því við að svona yrðum við öll einn daginn. Ég sagðist skilja hann en jafnframt vonast til þess að hann hefði rétt fyrir sér því ég vildi svo gjarnan fá að eldast með þeirri reisn sem Valdi gerði.

Elsku Valdalingur, þakka þér fyrir öll góðu árin og minningarnar sem munu halda áfram að ylja okkur telpukornunum þínum um ókomna tíð.

Verubarnið.

Vera Sölvadóttir.

„Elsku stúlkan mín,“ sagði afi Valdi alltaf þegar maður faðmaði hann og strauk manni síðan um vangann. Ég sakna strax þessara orða og allrar hlýjunnar sem umlukti hann.

Ég á svo margar ljúfar minningar um afa minn. Allt frá því að ég og Tóta frænka vorum litlar trillur sem eltum hann með stjörnur í augunum út í bílskúr á Hjarðarhaganum þar sem við fengum að fylgjast með honum dytta að hinu og þessu og tálga spýtukalla á meðan hann hrósaði okkur alltaf fyrir þó svo að spýtukarlarnir okkar væru alveg lausir við það að líkjast körlum. Allar ævintýraferðirnar sem hann fór með mér um franskar sveitir og skóga þegar hann og amma Nonný heimsóttu okkur fjölskylduna í Jonzac. Skemmtilegast þótti mér að fara með honum út á sjó í litla bátnum hans og veiða á sjóstöng. Og tjaldferðirnar í fellihýsinu með honum og ömmu þar sem við veiddum fiska úr vatni og tíndum bláber og krækiber af lyngi. Ég gæti haldið endalaust áfram en afi þreyttist aldrei á að bralla eitthvað með okkur barnabörnunum. Það sem mér þótti alltaf merkilegast við afa var að hann reiddist manni aldrei, sama hvað maður prakkaraðist (fyrir utan eitt skipti þegar við Tóta tróðum rúgbrauðsbita inn í eyrað á honum á meðan hann heimsótti draumalandið, eins og hann kallaði eftirmiðdagskríuna sína). Eftirminnilegasta atvikið um stóíska ró afa hlýtur að vera þegar ég og vinkona mín fengum að gista hjá honum og ömmu á Stokkseyri. Við vorum unglingar og laumuðumst út um baðherbergisgluggann eftir myrkur til þess að hitta stráka í hljómsveit. Við héldum að við hefðum verið svakalega lúmskar alveg þar til afi spurði okkur rólega yfir morgunmatnum hvort það væri kominn vorleikur í okkur lömbin. Síðan brosti hann bara blíðlega og bætti við „það er ungt og leikur sér“ og þar með var þetta mál afgreitt.

Afi minn var einstakur maður og góður, og það þótti öllum sem komust í kynni við hann. Nú er hann kominn til elskunnar sinnar, þarna uppi, eins og hann orðaði svo fallega sjálfur. Ég elska þig afi minn og takk fyrir allt sem þú kenndir mér og alla ástina sem ég fékk frá þér. Þín stúlkukind,

Sara.