Ólafur Björgvin Valgeirsson fæddist 20. janúar 1955 á Akureyri. Hann andaðist á heimili sínu 6. apríl 2019.

Ólafur var sonur Helgu Bjargar Jónsdóttur frá Þorvaldsstöðum í Breiðdal, d. 1. apríl 2010, og Valgeirs Eiríkssonar frá Gestsstöðum í Fáskrúðsfirði, d. 20. október 1973. Helga Björg og Valgeir slitu samvistum.

Systkini Ólafs voru sjö talsins: Hafliði Már, látinn, Margrét Jenný, látin, Guðjón Smári, Valgerður Heba, óskírður, látinn, óskírður, látinn, og Karólína Ósk, úr síðara hjónabandi Valgeirs.

Ólafur lætur eftir sig eiginkonu, Jónu Benediktu Júlíusdóttur. Þau kynntust haustið 1977 og gengu í hjónaband 1983. Börn þeirra eru: 1) Júlíanna Þórbjörg, f. 10. apríl 1981, maki Thorberg Einarsson. Börn þeirra eru Benedikt Blær Guðjónsson, Einar Ólafur Thorbergsson, Ísabella Eir Thorbergsdóttir og Aron Daði Thorbergsson. 2) Rannveig Hrund Ólafsdóttir, f. 26. september 1985, maki er Ómar Magnússon. Börn þeirra eru Heiðdís Líf Fannarsdóttir og Alexía Líf Ómarsdóttir. 3) Hafliði Freyr, f. 16. október 1990.

Eftir fermingu fluttist Ólafur með móður sinni og yngri systur að Geithellum í Álftafirði. Þar kynnist móðir Ólafs seinni eiginmanni sínum, Þórfinni Jóhannssyni, d. 29. apríl 1981. Þórfinnur brá búi á Geithellum árið 1979. Árið 1980 flytja Ólafur og Benedikta til Vopnafjarðar, þar hafa þau síðan búið. Ólafur vann ýmis störf til sjós og lands. Árið 1991 söðlaði hann um og tók við sem sundlaugarvörður við Sundlaugina í Selárdal. Þar var hann öll sumur og vann í Jónsveri á veturna. Ólafur hætti hjá Jónsveri. Starfaði síðan eingöngu við Sundlaugina í Selárdal allt til dauðadags.

Ólafur lét sig flest varða í nærsamfélagi sínu. Hann gegndi formannsstörfum og sat í ýmsum nefndum. Mörg ár var hann m.a. formaður Sjómannafélags Vopnafjarðar, formaður Sjálfsbjargar Vopnafirði, formaður Rauða krossdeildar Vopnafjarðar, sat í stjórn og gegndi formennsku stjórnar Héraðsskjalasafns Austurlands og var formaður sóknarnefndar Vopnafjarðarkirkju og kirkjuþingsmaður.

Ólafur var góður söngmaður og var virkur í öflugu kórastarfi á Vopnafirði alla tíð.

Ólafur var fjölmenntaður. Auk búfræðimenntunar frá Hólaskóla útskrifaðist Ólafur með BA- og Uni-gráður í ferðamálafræði frá Háskólanum á Hólum árið 2012. Hann hlaut einnig kennsluréttindi frá Kennararháskóla Íslands. Þá sótti Ólafur sér í gegnum árin ýmiss konar réttindi og menntun, m.a. í Menntaskólanum í Hamrahlíð, Menntaskólanum á Egilsstöðum, Fjölbrautaskólanum við Ármúla og Verkmenntaskólanum á Akureyri, svo fátt eitt sé nefnt. Tungumál voru alla tíð sérstakt áhugamál Ólafs og var hann sjálfmenntaður í ensku, dönsku og þýsku, auk þess sem hann var byrjaður að grúska í frönsku.

Útför Ólafs Björgvins fer fram frá Vopnafjarðarkirkju í dag, 16. apríl 2019, og hefst athöfnin klukkan 13.

Heill og sæll, kæri bróðir.

Þannig heilsaði ég alltaf ástkærum bróður mínum þegar ég hringdi í hann eða hitti hann. Hann svaraði alltaf: Sæll ljúfurinn minn. Þannig var samband okkar bræðra; traust og innilegt og styrktist með hverju árinu sem leið. Hann búsettur á Vopnafirði og ég í Mosfellsbæ. Það leið ekki sú vika að við heyrðum ekki hvor í öðrum.

Ólafur Björgvin bróðir minn var fimm árum yngri en ég, fæddur 20. janúar 1955. Hann var augasteinn móður okkar, eins og algengt er með yngsta barn. Við áttum heima á Akureyri og þegar hann var á fimmta ári og ég á tíunda ári skildu foreldrar okkar og móðir okkar sat eftir, ein með fjögur börn, það elsta á fjórtánda ári.

Lífsbaráttan var ekki auðveld og þurfti verulega að hafa fyrir hlutunum. Þegar móðir okkar var að vinna kom það mest í minn hlut að gæta bróður míns. Mér þótti það ekki alltaf auðvelt, en gerði það samt og tilfinningaböndin á milli okkar styrktust sífellt. Það var mér að mæta ef abbast var upp á litla bróður minn.

Við brölluðum margt og uppátækin mættu ekki alltaf skilningi móður okkar.

Alltaf þegar við komumst í vandræði, sem var ósjaldan, fórum við sjaldnast heim fyrr en við höfðum sammælst um söguna sem við létum móður okkar hafa varðandi málsatvik. Eins og við var að búast snerust sögurnar okkar um það að sleppa sem best frá öllu saman. Og alltaf bakkaði Óli bróðir upp söguna, sama hversu fáránleg og ótrúleg hún var. Enda hefur Óli bróðir alltaf talist til betri sögumanna og lét sjaldan góða sögu gjalda fyrir sannleikann.

Við bjuggum lengi á Berglandi uppi á brekku, sem var lítið hús, rétt fyrir ofan Grísaból. Einn vinsælasti leikvangur okkar þá var öskuhaugarnir uppi í fjalli hjá Glerárgljúfri, fyrir ofan sveitabæinn Lund. Virkilegt ævintýraland. Fullt af rottum sem skutust um allt og endalaust hægt að finna skemmtilega hluti í snarbröttu ruslastálinu sem logaði í hér og þar. Við drösluðum oft heim með okkur hinum sérkennilegustu hlutum sem við notuðum í búinu okkar úti í klettum, rétt hjá Berglandi.

Eins var bryggjan og fjaran heillandi, enda karl faðir okkar lengst af sjómaður. Við stálumst oft niður á bryggju þegar móðir okkar var að vinna. Ég kunni nokkur skil á skipum og bátum, enda oft fengið að fara um borð í togarann með pabba. Hann svalaði alltaf forvitni minni ljúfmannlega. Ég gat því oftast svarað spurningum sem forvitinn litli bróðir dældi á mig.

Kæri bróðir. Það er mér ekki auðvelt að sitja hér og skrifa þessi fátæklegu kveðjuorð til þín. Ég finn til mikils söknuðar og sársauka. Ég finn líka til óendanlegs þakklætis fyrir að fá að vera þér samferða í gegnum þessi rúmlega 64 ár lífs þíns. Ég vildi að samferðin hefði orðið lengri. Ég mun þó einhvern tíma ná að sætta mig við orðinn hlut, þó ég sjái það ekki núna.

Elsku Benna mín, kæra mágkona. Elsku börnin hans Óla; Júlíanna Þórbjörg, Rannveig Hrund og Hafliði Freyr. Elsku tengdabörn og barnabörn. Ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Guð almáttugur gefi ykkur öllum styrk í sorginni.

Guðjón Smári Valgeirsson.

Fallinn er frá góður maður – Ólafur Valgeirsson. Óli var traustur hlekkur í vopnfirsku samfélagi í áratugi. Alla tíð var hann þessi skemmtilegi gamli karl – þótt hann hafi alls ekki verið gamall. Það var viðmót hans sem minnti á eldri mann; hvernig hann sveipaði skipanir og spurningar góðmennskuljóma með því að ljúka máli sínu á orðunum gæskur eða vinur. Það var Óli Valgeirs.

Ég á margar góðar minningar um Óla. Ætli fyrstu kynnin hafi ekki verið þegar hann brá sér í gervi jólasveins. Alla mína æsku var Óli hinn eini sanni jólasveinn enda enginn sem lék það hlutverk jafnvel og hann.

Blítt viðmót Óla birtist best í litla móttökuskýlinu í Selárdalslaug, þar sem hann og Benna, kona hans, glöddu unga sundkappa með vanillukremkexi að sundferð lokinni. Og í skólasundi að hausti og vori sinnti Óli eftirlits- og uppeldishlutverki. Í klefanum var hann ákveðinn en þýður; rak á eftir okkur, brýndi fyrir okkur gildi hreinlætis og sagði okkur brandara og sögur. Eftir sundkennslu reyndum við að væla út eins og eina kexköku á mann en það var ekki í boði. Hann gaukaði þó oft að okkur köku í annarlok. Sundlaugin í Selárdal verður í mínum huga, og margra Vopnfirðinga, ætíð tengd þeim hjónum, Óla og Bennu.

Utan Selárdals lágu leiðir okkar Óla saman á ýmsum vettvangi. Þegar ég var í grunnskóla vann hann um tíma sem bókavörður og héngum við strákarnir mikið yfir honum á safninu. Hann átti alltaf stund fyrir spjall og kynnti okkur fyrir kór- og óperusöng með því að spila fyrir okkur lög í tölvunni. Seinna vöndum við strákarnir komur okkar í Jónsver, þar sem Óli var framleiðslustjóri. Þangað fórum við til að skoða verkstæðið, fá hjálp við skóviðgerðir en fyrst og fremst til að spjalla við Óla.

Hann var sérlega snjall sögumaður og upplesari og sat í dómnefnd fyrir upplestrarkeppni í Vopnafjarðarskóla þegar ég tók þátt. Það er eftirminnilegt hvernig hann tilkynnti með leikrænum tilburðum að ég hefði unnið. Þannig var Óli.

Hann var kraftmikill í félagsstarfi og var lengi formaður sóknarnefndar Vopnafjarðarkirkju. Eitt sumarið, á grunnskólaárum mínum, réð hann mig og tvo vini mína til að slá grasið í kirkjugarðinum. Ég man sérstaklega eftir því hve vel hann treysti okkur, ungum drengjunum, fyrir verkinu.

Kirkjustarfið var honum hugleikið. Ár hvert hringdi Óli heim á Lónabrautina og biðlaði til okkar bræðra að lesa Passíusálma í Hofskirkju á föstudaginn langa. Með tímanum skapaðist hefð fyrir þessu og má þakka Óla mikinn áhuga minn á Passíusálmunum í dag.

Óli var söngelskur og fróður um sögu og menningu. Með fráfalli hans er skarð fyrir skildi í kórum Vopnafjarðar og starfi kirkjunnar.

Mesta tómið skilur hann þó eftir hjá fjölskyldu og vinum sem elskuðu hann af alúð. Ég minnist Óla sem þess ljúfa og skemmtilega manns sem hann var.

Elsku Benna og fjölskylda. Guð varðveitir góða sál. Megi allir Guðs englar vaka yfir ykkur á þessum erfiðu tímum.

Vaktu, minn Jesús, vaktu í mér,

vaka láttu mig eins í þér.

Sálin vaki þá sofnar líf,

sé hún ætíð í þinni hlíf.

(Hallgrímur Pétursson)

Bjartur Aðalbjörnsson.