Stjórnarráðshús Vinningstillaga um viðbyggingu við gamla húsið sem tekið var í notkun 1770. Kanna á fornleifar á lóðinni áður en lengra er haldið.
Stjórnarráðshús Vinningstillaga um viðbyggingu við gamla húsið sem tekið var í notkun 1770. Kanna á fornleifar á lóðinni áður en lengra er haldið.
Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Kærunefnd útboðsmála hefur hafnað kröfu Andrúms arkitekta ehf. um að felld verði úr gildi ákvörðun forsætisráðuneytisins og Framkvæmdasýslu ríkisins um að veita arkitektastofunni Kurt og Pí ehf.

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Kærunefnd útboðsmála hefur hafnað kröfu Andrúms arkitekta ehf. um að felld verði úr gildi ákvörðun forsætisráðuneytisins og Framkvæmdasýslu ríkisins um að veita arkitektastofunni Kurt og Pí ehf. fyrstu verðlaun í samkeppni um viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið og um greiðslu skaðabóta vegna málsins. Þetta kemur fram í úrskurði sem birtur hefur verið á vef nefndarinnar.

Kærunefndin ákvað í lok janúar að stöðva samningsgerð við Kurt og Pí ehf. þar sem verulegar líkur væru á því að framkvæmd hönnunarsamkeppninnar og val tillögu hefði verið ólögmæt. Í úrskurði nefndarinnar segir að þótt hún telji enn sem fyrr að annmarkar hafi verið á framkvæmd samkeppninnar af hálfu dómnefndar hafi athugun málsins ekki leitt í ljós að vinnubrögð dómnefndarinnar hafi í reynd leitt til þess að þátttakendur hafi skilið forsendur hönnunarsamkeppninnar með svo ólíkum hætti að jafnræði þeirra hafi verið raskað og brotið hafi verið gegn reglum um tilhögun hönnunarsamkeppni.

Öll starfsemi undir sama þaki

Samkvæmt frumathugun sem Framkvæmdasýsla ríkisins gerði árið 2017 má ætla að kostnaður við byggingu 1.200 fermetra húss við Stjórnarráðshúsið geti numið allt að milljarði króna. Það á þó eftir að skýrast frekar. Í fyrra var gert ráð fyrir því að útboðsgögn vegna verksins yrðu tilbúin á vormánuðum 2020 og að vígsla byggingarinnar gæti orðið um áramótin 2021/22.

Viðbyggingin verður um 1.200 fermetrar og á að hýsa flestar skrifstofur forsætisráðuneytisins, fundarými og aðstöðu fjölmiðla. Í tengslum við verkið er gert ráð fyrir því að endurskoðað verði innra skipulag Stjórnarráðshússins og húsið tengt við viðbygginguna. Auk starfsemi í Stjórnarráðshúsinu hefur forsætisráðuneytið leigt húsnæði við Hverfisgötu, samtals tæplega 1.200 fermetra. Námu leigugreiðslur ráðuneytisins árið 2017 um 2,6 milljónum króna á mánuði. Þá var í byrjun þessa árs tekið á leigu tímabundið viðbótarskrifstofuhúsnæði í miðbænum vegna flutnings jafnréttismála til forsætisráðuneytisins.

Fornleifarannsókn

Fyrirhuguð er fornleifarannsókn á byggingarsvæðinu áður en framkvæmdir hefjast. Á lóðinni eru 23 skráðar fornleifar. Þar sem bílastæði er nú við Stjórnarráðshúsið stóðu byggingar frá því um aldamótin 1800 til ársins 1976. Fyrir vestan og norðan húsið eru ekki þekktar byggingar en þar voru grjóthlaðnir göngustígar og grjótgarðar, líklega til að varna því að Lækurinn flæddi inn á lóðina. Þar voru auk þess stórir kál- og skrautgarðar í gegnum tíðina. Agnes Stefánsdóttir hjá Minjastofnun sagði í gær að enn hefði engin umsókn um rannsókn á lóðinni borist stofnuninni og því óljóst hvenær hún fer fram.

gudmundur@mbl.is

Viðbygging
» Ríkisstjórnin ákvað að láta reisa viðbyggingu við gamla Stjórnarráðshúsið.
» Þar verða skrifstofur og fundarými. Húsið verður tengt gömlu byggingunni.
» Kurt og Pí ehf. hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um hönnun viðbyggingarinnar.