Anna Guðrún Garðarsdóttir fæddist í Keflavík 12. nóvember 1960. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í faðmi fjölskyldunnar 1. apríl 2019.

Foreldrar hennar eru Helga Auðunsdóttir, f. 1. ágúst 1935, og Garðar Brynjólfsson, f. 12. júní 1939, d. 2. september 2012. Bróðir Önnu er Auðunn Þór Garðarsson, f. 21. júní 1959, d. 14. ágúst 1994.

Anna giftist Kára Guðmundssyni, f. 11 febrúar 1959. Þau skildu. Börn þeirra eru Heiðar Örn Kárason, maki Helga Fjóla Jónsdóttir. Þeirra börn eru Daníel Kári Heiðarsson og Freydís Fjóla Heiðarsdóttir. Eldri dóttir þeirra er Theodóra Steinunn Káradóttir, gift Eggerti Daða Pálssyni. Börn þeirra eru Guðmunda Júlía Eggertsdóttir og Garðar Daði Eggertsson. Yngri dóttir er Sylvía Rut Káradóttir, maki Eyþór Ingi Einarsson.

Núverandi eiginmaður Önnu er Sigurjón Sveinsson, f. 1 júní 1960. Börn hans frá fyrra hjónabandi eru Guðbjörg Ragna Sigurjónsdóttir, maki Björgvin Guðnason. Þau eiga saman þrjú börn. Stefán Guðberg Sigurjónsson, maki Brynja Ýr Baugsdóttir. Þau eiga saman tvö börn. Stjúpdóttir er Stefanía Bonnie Lúðvíksdóttir, maki Björgvin Þórhallsson. Þau eiga saman fjögur börn.

Anna vann í mörg ár hjá Kynnisferðum á Keflavíkurflugvelli. Árið 2007 lauk hún við sjúkraliðanám frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Síðustu árin sín vann hún sem sjúkraliði á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Útförin fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 16 apríl 2019, klukkan 13.

Elsku gullfallega mamma mín.

Mínar allra bestu þakkir fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og kennt mér. Þú hugsaðir einstaklega vel um mig og þannig fékk ég að upplifa þau forréttindi að alast upp á kærleiksríku heimili því þú veittir mér óendanlega ást og umhyggju. Þú varst einstök kona, alltaf lífsglöð og jákvæð, allt þar til yfir lauk.

Ég er allt of ung til að missa þig og er alls ekki undir það búin. Það er svo margt sem ég átti eftir að upplifa með þér en þau ár sem ég hef fengið að verja með þér eru mér ómetanleg og ég er afar þakklát fyrir þær minningar sem ég á um okkur saman. Ég mun sakna þín mjög mikið og trúi því ekki ennþá að þú sért farin en ég veit að þú munt alltaf fylgja mér.

Ég elska þig svo mikið, elsku mamma.

Þinn gullmoli,

Sylvía.

Elsku mamma.

Tilfinningin er dofin, ég titra og kvíði fyrir deginum. Það er erfitt að vakna því þá rennur upp fyrir mér ískaldur raunveruleiki og sá er að þú ert ekki hér lengur. Ég hreinlega trúi ekki að þú sért farin frá mér, frá okkur. Lífið er ósanngjarnt, þér var kippt frá okkur á allt of stuttum tíma og allt of fljótt.

Í dag líður mér eins og ég geti ekki lifað án þín. Hver á að hughreysta mig þegar mér líður illa, gleðjast með mér eða hringja í mig nokkrum sinnum á dag til að tala um allt og ekkert? Ég upplifi mikið tómarúm, því hvar á ég að hanga og þiggja eldamennskuráð? Hver ætlar að forvitnast um vikuplönin, bæði hjá mér og mínum og hver á að skipuleggja barnaafmælin og öll matarboðin í framtíðinni? Æi ... Lífið verður einstaklega skrýtið og tómlegt án þín. Þrátt fyrir það ætla ég að lifa fyrir þig, elsku mamma, og vera jafn þakklát og jákvæð eins og þú. Ég ætla að gera allt sem þig langaði og ætlaðir að gera. Ég mun lifa lengi því ég bý að minningunum okkar og öllum þeim dásamlegu sögum sem til eru af þér. Öllu þessu fylgir mikill hlátur og er ekki sagt að hláturinn lengi lífið.

Mig langar að minnast þess að þú varst stoð mín og stytta, bæði í gegnum gleðina og sorgina í mínu lífi. Þú varst mín besta vinkona og þú gerðir allt fyrir mig. Ekki nóg með það að þú varst besta mamma sem hægt er að hugsa sér heldur varstu líka besta amma sem til var. Persónuleiki þinn var einstakur, þú varst góðhjörtuð, falleg að innan sem utan, jákvæð og skemmtileg. Það sem var hægt að hlæja með þér og að þér. Þú varst klárlega besti ferðafélaginn minn enda erum við búnar að ferðast mikið saman og vá hvað það eru dýrmætar minningar. Mamma þú ert fyrirmyndin mín, þú mótaðir okkur systkinin, þú ein átt heiðurinn af því að við erum þær manneskjur sem við erum í dag. Þú varst hlekkurinn okkar. Þú varst hetjan mín, óútskýranlegt hvað það var mikið lagt á þig en alltaf réttirðu úr þér án þess að kvarta. Þú varst svo sterk.

Hjartað mitt er í molum og ég sakna þín svo sárt. Ég mun aldrei gleyma síðasta kossinum og faðmlaginu frá þér, þú notaðir alla þína krafta til að hugga mig og það lýsir okkar sambandi best. Ég hugga mig við að þú ert laus við krabbann og verki og líður vel. þú ert komin til Gæa afa og bróðir þíns og fullt af öðru fólki sem þykir vænt þig.

Elsku mamma, ég mun ætíð elska þig, ég mun elska eins og þú elskaðir. þú varst algjör perla, takk fyrir allt.

Theodóra Káradóttir.

Í dag kveð ég mína ástkæru frænku.

Mikið getur lífið verið ósanngjarnt að taka hana Önnu frænku svona alltof snemma frá okkur. Anna var yndisleg í alla staði og sannkölluð hetja í okkar augum. Hún var kletturinn í föðurfjölskyldunni minni og hugsaði vel um alla. Alveg frá því að ég man eftir mér var alltaf gott að vera hjá Önnu. Við Teddý eldri dóttir hennar erum bestu vinkonur og höfum við nánast verið óaðskiljanlegar frá fæðingu, enda samferða í öllu sem við gerum. Eftir að móðir mín lést tók hún Anna okkur systrunum sem sínum eigin og lét okkur finna að við vorum henni jafn mikilvægar og hennar eigin börn. Það sem að ég er þakklát og glöð eftir síðasta símtalið okkar, þar sem hún sárlasin hringdi og óskaði mér til hamingju með drenginn minn sem átti afmæli.

Það var alltaf jafn gaman að vera í nærveru Önnu. Alltaf hlegið og haft gaman, þá aðallega af því að hún var svo fyndin. Stundum var bara nóg að horfa á hana og hlæja. Það er bara ein Anna og verður bara ein Anna í okkar lífi. Mikið á ég eftir að sakna göngutúranna til þín á sumrin og sitja með þér á pallinum og njóta. Við áttum einstakt frænkusamband en synir mínir kölluðu hana „ömmu frænku“, sem byrjaði einfaldlega með smá misskilningi útfrá „Önnu frænku“. Hún var svo ánægð og stolt með þennan misskilning og talaði oft um það.

Hún Anna var algjör hetja og barðist fram á síðasta dag. Erfiðleikar og sorgir hafa dunið á litlu fjölskyldunni okkar. Ég hélt að þetta væri bara komið gott, en aldeilis ekki. Hún átti svo hjartanlega skilið að fá að njóta lífsins með okkur áfram. Öllum þeim erfiðleikum sem hún gekk í gegnum tók hún með æðruleysi og hvatti okkur hin. Hún sagði okkur alltaf að hún yrði gömul og við þyrftum ekki að vera að hafa áhyggjur af henni.

Með sorg í hjarta kveð ég þig og mun ekki líða sá dagur að ég hugsi ekki til þín.

Mínar dýpstu samúðarkveðjur til Helgu ömmu, Siffa, Heiðars, Teddý, Sylvíu og öðrum aðstandendum. Megi Guð og englar vaka yfir ykkur og styrkja ykkur í sorginni.

Þín frænka,

Helga Auðunsdóttir.

Mín kæra vinkona Anna, það er komið að kveðjustund.

Okkur er ekki ætlað að vita hvað lífið færir okkur eins og við höfum oft talað um saman. Krabbameinið byrjaði fyrir þremur árum og baráttan var vissulega mjög erfið. Anna mín varð að lúta í lægra haldi fyrir erfiðum veikindum sínum eftir hetjulega baráttu.

Ég og Anna urðum vinkonur hér í Keflavík fyrir um tuttugu og fimm árum. Okkur vinkonunum var boðið í flottan og yndislegan saumaklúbb þar sem margar góðar minningar hafa orðið til.

Síðasta haust fór saumaklúbburinn saman í dýrmæta ferð til Kaupmannahafnar þar sem Anna fékk fallega íbúð á leigu hjá Sjúkraliðafélaginu. Þessir fimm dagar sem við áttum saman var frábær tími og skemmtum við okkur vel. Fórum í flottar búðir, kaffihús, út að borða og huggulegheit í íbúðinni. Við munum sakna Önnu okkar mikið og minn hugur er í sumarlandinu þar sem bíður okkar fallegur saumaklúbbur.

Við Anna eignuðumst báðar yndislegar dætur haustið 1996 og urðum við mjög nánar vinkonur uppfrá því. Við gerðum mikið saman með Lovísu minni og Sylvíu þinni Anna mín, fórum á nuddnámskeið, sundæfingar, í göngutúra og í heimsóknir með litlu stelpurnar okkar. Dætur okkar urðu bestu vinkonur og eru það enn þann dag í dag og munu þær verða yndislegar eins og við vorum, kæra Anna mín.

Mér er efst í huga þakklæti til þín og hversu dýrmæt vinkona þú varst mér alla tíð og mun ég alltaf vera til staðar fyrir þína fjölskyldu.

Anna, þú varst frábær fyrirmynd og dugleg móðir með þín yndislegu þrjú börn, Teddý, Heiðar og Sylvíu Rut, sem sannarlega voru heppin með móður sína.

Það er þungt og dimmt yfir öllu þó að vorið sé í nánd en við munum halda minningu þinni á lofti og heiðra þitt líf alla tíð. Ég mun alltaf geyma þig í hjarta mínu hvert sem ég fer.

Hér er einnig vinkonukveðja frá saumaklúbbnum:

Elsku Anna okkar.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfin úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Takk kæra vinkona fyrir allar þær stundir og minningar sem við eigum saman. Þær munu ávallt lifa í hjörtum okkar. Hvíldu í friði, Anna okkar, þín verður saknað.

Elsku Helga, Siffi, Teddý, Heiðar, Sylvía og fjölskyldur. Hugur minn er hjá ykkur á sorgarstund.

Takk fyrir allt, elsku Anna mín. Hvíldu í friði.

Þín vinkona,

Guðveig (Veiga).