Kyrrsett Flugvélin Jökulsárlón, TF-ICE, flaug síðast 12. mars.
Kyrrsett Flugvélin Jökulsárlón, TF-ICE, flaug síðast 12. mars. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Pétur Hreinsson peturhreins@mbl.is Bandarísku flugfélögin American Airlines og Southwest Airlines hafa ákveðið að kyrrsetja Boeing 737 Max-vélar í flota sínum til ágústmánaðar næstkomandi.

Baksvið

Pétur Hreinsson

peturhreins@mbl.is

Bandarísku flugfélögin American Airlines og Southwest Airlines hafa ákveðið að kyrrsetja Boeing 737 Max-vélar í flota sínum til ágústmánaðar næstkomandi. Í tilfelli American Airlines hafa vélarnar verið kyrrsettar til 19. ágúst, en félagið gerði út 25 Max-vélar, eða um 2,6% af flota sínum. Southwest kyrrsetti sínar 34 Max-vélar til 5. ágúst en þær nema 4,5% af flotanum. Síðastliðinn miðvikudag gaf Icelandair út að uppfærð flugáætlun félagsins gerði ráð fyrir að Max-vélar flugfélagsins yrðu kyrrsettar til 16. júní næstkomandi. Þær þrjár Max-vélar sem kyrrsettar voru í síðasta mánuði hjá Icelandair námu 9% af flota félagsins á þeim tíma en félagið gerði einnig ráð fyrir því að taka sex Max-þotur í notkun í vor, þrjár af gerðinni Boeing 737 Max 8 og þrjár Max 9. Í ár var því gert ráð fyrir að Max-vélarnar yrðu 9 af 36, eða sem nemur fjórðungi flotans. Samtals hljóðaði pöntun Icelandair upp á 16 Max-þotur sem taka átti í notkun fram til ársins 2021.

Ómögulegt að vita

Af þessu má álykta sem svo að auðveldara sé fyrir áðurnefnd bandarísk flugfélög en Icelandair að gera ráðstafanir vegna Max-vélanna út sumarið þar sem um töluvert færri vélar er að ræða hlutfallslega.

„Þetta var tímalínan sem við gáfum okkur. Við erum ekki með upplýsingar um það hvenær þessar vélar fara að fljúga. Það er undir yfirvöldum komið og það er ómögulegt að segja,“ segir Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair.

Spurður um hinar ólíku viðmiðunardagsetningar segir Sveinn Þórarinsson, greinandi hjá Landsbankanum, að það hafi komið sér á óvart að Icelandair miði við það að koma vélunum í loftið í júní í ljósi þess sem önnur félög hafa gert. „Ég held að þetta sé bara vinnuregla sem sett er fyrir áætlanagerð. Í sjálfu sér veit enginn hvenær þessar vélar fara á loft,“ segir Sveinn Þórarinsson.

Ættu að minnka framboð

„Bandarísk flugmálayfirvöld eiga eftir að ákveða hvenær þau gefa grænt ljós og síðan í kjölfarið eftirlitsstofnanir í Evrópu og víðar. En þá eiga flugfélögin sjálf eftir að ákveða hvort þau vilji taka við þessum vélum og hvenær þau telja að farþegar séu tilbúnir að fljúga með þeim. Þetta eru nokkur skref sem þarf að taka. En ég myndi halda að sumarið væri fyrir bí hvað þetta varðar fyrir Icelandair. En ég ítreka að það er erfitt að spá um þetta,“ segir Sveinn í samtali við Morgunblaðið. Að því gefnu að Max-vélarnar fari ekki á loft fyrr en eftir háannatímann er Icelandair þar af leiðandi með færri vélar en félagið hafði í fyrra.

„Icelandair áætlaði í upphafi árs 13% farþegavöxt. Félagið þarf að auka nýtingu verulega ef Max-vélarnar koma ekki í sumar. En ég er ekki viss um að félagið vanti vélar. Ekki nema eftirspurn eftir flugi til Íslands aukist verulega. Að mínu mati væri skynsamlegra fyrir félagið að halda framboðinu niðri til þess að fá betra verð. Það hefur verið of mikil samkeppni og of mikið framboð. Ef félagið vill snúa rekstrinum við þurfa flugfargjöld að hækka. Hluti af því er að reyna að halda niðri framboði. Það tekur lengri tíma að snúa rekstrinum við í gegnum kostnað. En staðreyndin er sú að félagið er komið með þessar nýju vélar og það er rándýrt að hafa þær sitjandi.“

Icelandair
» Gerði ráð fyrir að vera með níu 737 Max-vélar í ár.
» Felldi á dögunum niður 3,6% af flugferðum sínum vegna kyrrsetningarinnar þar sem miðað var við 16. júní.
» Tap félagsins nam 6,7 milljörðum króna í fyrra.