Bíladella Óskar hefur átt marga góða bíla um dagana og ferðast víða, en syngur þó aldrei undir stýri á ferðalögum.
Bíladella Óskar hefur átt marga góða bíla um dagana og ferðast víða, en syngur þó aldrei undir stýri á ferðalögum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Sólin var í hátíðarskapi á heiðskírum himni og bílrúðurnar hömuðust við að ramma inn landslagsmyndirnar sem hvarvetna blöstu við á Holtavörðuheiði og í Hrútafirði.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Sólin var í hátíðarskapi á heiðskírum himni og bílrúðurnar hömuðust við að ramma inn landslagsmyndirnar sem hvarvetna blöstu við á Holtavörðuheiði og í Hrútafirði.

Draumar blíðir og bjartir

Eins og venjulega var staldrað við í Staðarskála, sjoppunni sem sögð er vera miðstöð mannaferða á Íslandi. Þar var fjöldi fólks á þessum fallega vordegi sem tengja má við ljóðið Vorsól eftir Stefán frá Hvítadal: „ Ótal drauma blíða og bjarta / barstu vorsól inn til mín. / Það er engin þörf að kvarta / þegar blessuð sólin skín .“ Við þann texta er til fjörlegt lag eftir Björgvin Þ. Valdimarsson sem margir söngvarar hafa spreytt sig á. Þeirra á meðal er Akureyringurinn Óskar Pétursson frá Álftagerði í Skagafirði sem einmitt renndi í hlað þegar tíðindamaður Morgunblaðsins var í vegaskálanum vinsæla.

Dellukarlar velja sér bíl við hæfi, Óskar ekur um á Mercedes-Benz E 280 CDI, árgerð 2007, sem hann eignaðist á síðasta ári. Bíllinn sem ber einkanúmerið A 1 er glæsikerra sem var upphaflega í útgerð þýska sendiráðsins á Íslandi en eigendurnir hafa annars verið nokkrir í tímans rás.

Hefur átt óteljandi bíla

„Nei, ég syng aldrei á ferðinni; nema hvað ég set stundum geisladiska í tækið og spila lög og texta sem ég þarf að læra. Mér finnst notalegt að renna svona milli landshluta þegar veðrið er gott og umferðin mátulega mikil,“ segir Óskar. „Ég hef átt óteljandi bíla um dagana, enda vann ég við bílaviðgerðir í áratugi. Í dag eru viðgerðirnar hins vegar tómstundagaman og núna er ég að dunda mér við að gera upp traktor af gerðinni Allis Chalmers, árgerð 1949, frá Vogum í Mývatnssveit. Er ætlunin að endurgerð verði dráttarvélin sýningargripur í Vogum, þar sem starfrækt er ferðaþjónusta.“ Mörg undanfarin ár hefur söngurinn verið aðalstarf Óskars. Í síðustu viku fór hann víða um með Karlakór Rangæinga sem þá hélt vortónleika sína sunnanlands. Í gær söng Óskar svo í jarðarför í Akureyrarkirkju, en honum telst til að útfarirnar við kirkjuna sem hann hefur sungið við á síðastliðnum þrjátíu árum séu orðnar um 3.000 talsins.

Í fullu fjöri

„Við Eyþór Ingi Jónsson organisti vinnum vel saman og leggjum alúð í mál; því hver útför er einstök, þó þær renni auðvitað svolítið saman í minninu þegar frá líður. Ég kem aldrei óundirbúinn í jarðarför og æfi mig ef þarf að taka ný lög samkvæmt séróskum,“ segir Óskar sem er einn hinna söngnu og sívinsælu Álftagerðisbræðra.

„Við erum enn í fullu fjöri og stefnum á stórtónleika í haust,“ segir söngvarinn Óskar Pétursson að síðustu.